Bjarni Már Júlíusson, sem var rekinn í gær úr starfi sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, viðurkennir að hafa gert mistök og segist iðrast orða sem hann notaði. Hann vill þó ekki vera málaður upp sem einhver „dónakall“.
Stjórn ON ákvað í gær að segja Bjarna Má upp störfum og sagði forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í samtali við mbl.is að eitt óviðeigandi tilvik hefði leitt til uppsagnar Bjarna Más.
„Þetta er auðvitað ömurlegt mál og ég er sleginn yfir atburðarásinni,“ segir Bjarni. Hann viðurkennir mistök í samskiptum sínum við undirmenn í Wow-hjólreiðakeppninni. Hann segir atvikið óviðeigandi snúa að tölvupósti sem hann sendi konum í hjólaliðinu í vor.
Hann las þá frétt á vef Smartlandsins „Hjólreiðar bæta kynlífið.“ Þá frétt sendi hann á konurnar sem höfðu verið með honum í hjólaliðinu og skrifaði „Þetta grunaði mig“ og lét broskall fylgja.
Hann segist hafa áttað sig á því að pósturinn væri óviðeigandi og sendi konunum afsökunarbeiðni degi síðar. „Ég biðst afsökunar á óviðeigandi talsmáta,“ segir Bjarni.
„Ég kvaddi starfsfólk í morgun og baðst afsökunar á því ef ég hefði með orðfæri mínu sært einhverja,“ segir Bjarni. Hann bætir því við að það sé erfitt að sitja undir þeirri mynd sem verið er að mála af honum:
„Ég er ekki þessi dónakall en ætli þessi mynd sé ekki sjálfsköpuð af því að ég var ekki nógu vandaður í orðavali.“