„Fólk er óttaslegið og stressað, maður finnur það. Það eru bílaraðir á götunum og seinkanir á vegum. Það er búið að vera upplausnarástand,“ segir Gyða Kolbrún Jones, íslensk kona búsett í Jacksonville í Norður-Karólínuríki í Bandaríkjunum.
Íbúar á austurströnd Bandaríkjanna búa sig nú undir komu fellibylsins Flórens sem er nú við Bermúda-eyjar og mun líklegast ná landi aðfaranótt föstudags. Neyðarástandi hefur verið lýst í Norður- og Suður-Karólínu, Virginíu, Maryland og höfuðborginni Washington.
Búist er við því að fellibylurinn komi á land í Wilmington-sýslu í Norður-Karólínu sem er í um það bil 45 mínútna akstursfjarlægð suður af Jacksonville þar sem Gyða býr.
Erlendir veðurfræðingar telja að stormurinn muni stefna rakleiðis norður í átt að Jacksonville þegar hann nær landi.
„Svæðinu var lýst sem hættusvæði í gærmorgun og öllum skipað að koma sér í burtu. Það hafa margir farið og það er hálftómt hérna. Allar búðir og hillur eru tómar, vatn og bensín er búið. Síðan verður útgöngubann líkega sett á snemma í fyrramálið vegna hættu á flóðum,“ segir Gyða.
Gyða og eiginmaður hennar ætla þó ekki að flýja hættuna sem fylgir fellibylnum og munu gista heima hjá sér. Gyða hefur skráð sig í vinnu hjá FEMA (Federal Emergency Management Agency), einskonar almannavörnum þar ytra og mun fá það hlutverk að vakta verslanir og fyrirtæki. Lögregluyfirvöld munu ekki sinna útköllum á meðan bylurinn er í hámarki. Gyða segir yfirvöld og aðra búast við manntjóni og eyðileggingu vegna fellibylsins. Gert er ráð fyrir því að rafmagn geti farið af í allt að tvær vikur.
„Já, það er alltaf búist við mannfalli í svona stórum stormum. Flóðin eru eiginlega hættulegust. Hér er mikið af ám og vötnum, og það flæðir mjög fljótt yfir bakka,“ segir Gyða og bætir við:
„Það er lognið á undan storminum núna. Sól og fuglasöngur en þeir segja að við eigum að finna fyrir rigningu og vindhviðum í kvöld.“