Þingmaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, gagnrýnir nýútkomið fjárlagafrumvarp og segir það lítið afrek að skila afgangi inn í ríkissjóð. Gagnrýni á há útgjöld ríkisins var áberandi á fyrsta fundi Alþingis um fjárlagafrumvarpið, en fundurinn hófst í morgun.
Þorsteinn gagnrýndi útgjöldin harðlega og sagði að stjórnvöld þyrftu að vera á varðbergi: „Hvað er öðruvísi nú? Þessi mikla útgjaldaþensla á þessum tímapunkti hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð hugmynd, í íslenskri hagstjórn,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.
„Á tíu ára fresti förum við í gegnum niðursveiflu, á 20 ára fresti er hún hörð, og á 20 ára fresti er hún tiltölulega mjúk. Við fórum fyrir áratug í mjög harða aðlögun og það er ekki mikil ástæða til óttast það núna. Það er full ástæða til þess að vera á varðbergi fyrir því sem kalla mætti mjúka aðlögun,“ sagði Þorsteinn.
Að lokum spurði Þorsteinn: „Hvaða skatta á að hækka til að fjármagna þessa útgjaldaaukningu?“
Í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra segir hann að sums staðar sé verið að eyða peningum sem myndu geymast betur sem afgangur í ríkissjóði. Þá sagði Bjarni gagnrýni á útgjaldaaukningu vera nýbreytni og henni tekið fagnandi. Fjárlagaumræðan hæfist gjarnan á því að gagnrýnt væri að ekki væru næg framlög til ýmissa málaflokka og heilbrigðiskerfið haft í hápunkti en þannig væri þó ekki staðan í ár.
Hann ræddi um að hagkerfið væri breytt og að það væri allt annað hagkerfi en það sem var í fyrri hagsveiflunni. Þá sagði Bjarni skattahækkanir ekki fyrirhugaðar, til að standa straum af útgjaldaaukningunni: „Ég tel að ef í harðbakkann slær þurfum við að aðlaga okkur þeim aðstæðum og þá er nær að lækka skatta heldur en að hækka þá,“ sagði Bjarni.