Komandi kjarasamningar voru ofarlega í huga margra þingmanna á Alþingi í gær í umræðum um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í ræðu sinni fjallaði hún meðal annars um samráð ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins.
Boðaði hún einnig breytingar á lögum um Seðlabankann eftir áramót sem hluta af vinnu við að styrkja rammann um peningastefnuna. Sagði Katrín að vísbendingar væru um að kostnaður í fjármálakerfinu væri meiri hér en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Framundan væri vinna við að styrkja umgjörð fjármálakerfisins enn frekar og hluti vinnunnar væri að greina kostnaðinn. Einnig fjallaði Katrín um nýjan Þjóðarsjóð um arðgreiðslur orkufyrirtækja í eigu ríkisins og sagði hann eitt lykilmála ríkisstjórnarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, sagði að stjórnvöld þyrftu að koma að lausn kjarasamninga „með afgerandi hætti“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og sagði hana hafa slegið 100 ára gamalt met í útþenslu báknsins, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins um stefnuræðu forsætisráðherra og umræður um hana á Alþingi í gærkvöldi.