15-40% samdráttur í skálagistingu

Ferðamönnum á Laugaveginum fækkaði úr 15 þúsund á síðasta ári …
Ferðamönnum á Laugaveginum fækkaði úr 15 þúsund á síðasta ári niður í um 12 þúsund á þessu ári. Mynd/Ferðafélag Íslands

Um 15-20% færri ferðamenn gengu Laugaveginn í ár en í fyrra og um 15% samdráttur var á komu ferðamanna í Landmannalaugar. Gisting í skálum Ferðafélags Íslands dróst saman um 15-20% frá því í fyrra og hjá ferðafélagsdeildum á landsbyggðinni var samdrátturinn allt að 40%. Þetta segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Telur hann fækkun ferðamanna frá Mið-Evrópu vega þungt í þessari þróun.

Ferðafélag Íslands á og rekur 16 skála á hálendinu, á Ströndum og Hornströndum. Páll segir að sumarið í ár hafi verið nokkuð sérstakt. Í fyrsta lagi hafi veðrið fyrri hluta sumars verið slæmt og mikil vætutíð. Þá hafi HM í knattspyrnu einnig haft áhrif á ferðir fólks fyrri hluta sumars. Þegar HM lauk hafi hins vegar bæði birt til og ferðafólk aukið komu sína á Fjallabak og Fimmvörðuháls, en frá Landmannalaugum og suður á Fimmvörðuháls er félagið með sjö skála og koma flestir ferðamenn á það svæði, enda Laugavegurinn vinsælasta gönguleið landsins.

Umferð um Laugaveg og Landmannalaugar ekki minni í 3-4 ár

Ekki er búið að taka saman lokatölur fyrir sumarið, en Páll segir ljóst að umferðin um Laugaveginn og í Landmannalaugar hafi ekki verið minni í 3-4 ár. Hún hafi þó áfram verið töluverð og segir hann félagið áætla að 12 þúsund manns hafi farið Laugaveginn í ár, samanborið við 15 þúsund í fyrra. „Við berum okkur samt ekki illa með þennan fjölda, það koma tugir þúsunda í Landmannalaugar,“ segir Páll.

Ferðafélag Íslands rekur meðal annars skála í Emstrum, en hann …
Ferðafélag Íslands rekur meðal annars skála í Emstrum, en hann er einn sex skála sem félagið á við Laugaveginn.

Ferðamönnum sem sækja í lengri göngur fækkar 

Ferðamönnum frá Mið-Evrópu fækkaði um 16-23% á landinu í sumar og Páll segir að það komi vel fram í tölum um komur á Fjallabak. Þannig hafi Þjóðverjar, Frakkar, Belgar, Hollendingar, Austurríkismenn og Svisslendingar verið meðal stærstu hópa sem þangað komu á hverju sumri.

Bandaríkjamönnum hefur hins vegar fjölgað mikið undanfarin ár, en Páll segir að þeir fari minna í lengri gönguferðir og stoppi jafnframt styttra á landinu en Mið-Evrópubúar. Þá skipuleggi þeir ferðalög sín mest út frá suðvesturhorni landsins og fari minna upp á hálendið.

Uppbókað í fyrra, 80% nýting í ár

Undanfarin ár hefur skálagisting á Laugaveginum að mestu verið uppbókuð, en Páll segir að í ár hafi hún verið um 80%. Á fyrri hluta sumarsins hafi vætutíðin jafnvel hjálpað aðeins til við að hækka það hlutfall, en margir sem ætluðu að gista í tjöldum hafi leitað inn í skála og fengið gistingu þar sem laust var í koju.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

Þórhallur Þorsteinsson, formaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, tekur undir með Páli og segir ljóst að um talsverða fækkun hafi verið í miðað við síðustu ár. Félagið á og rekur sex skála; þrjá á Víknaslóðum, tvo á Lónsöræfum og einn í samstarfi við Ferðafélag Húsavíkur í Kverkfjöllum.

Allt að 40% samdráttur í Lónsöræfum

Mestur samdráttur var að sögn Þórhalls í Lónsöræfum, en þar fækkaði gestum um 30-40% milli ára. Í Kverkfjöllum og á Víknaslóðum fækkaði gestum um 20-30%. Hann nefnir þó að í Víkunum hafi fleiri Íslendingar komið en undanfarin ár og þá hafi Ítölum ekki fækkað, en þeir séu einmitt fjölmennasti hópur erlendra ferðamanna sem gisti í skálum félagsins.

„Ég held að breyttar ferðavenjur skýri þetta,“ segir Þórhallur og vísar þar til fækkunar ferðafólks frá Mið-Evrópu. Þá segir hann breytingu á virðisaukaskatti og sterka krónu hafa valdið því að Ísland sé í dag dýrari áfangastaður en áður. Fólk sé á landinu í færri daga og fari í styttri ferðir og það hafi sérstaklega áhrif þeim mun lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu.

Egilssel, skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Lónsöræfum. Þar fækkaði gestum um …
Egilssel, skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Lónsöræfum. Þar fækkaði gestum um 40% milli ára. Ljósmynd/Ferðafélag Fljótsdalshéraðs

60% færri gestir í Kverkfjöllum en fyrir 25 árum 

Þróunin undanfarið er sérstaklega mikil í Kverkfjöllum, en Þórhallur segir að þegar horft sé á 25 ára tímabil sé gestum búið að fækka um tæplega 60%. Í ár hafi undir tvö þúsund manns komið í skálann í Kverkfjöllum, en á árunum 1992 til 1993 hafi fjöldi gesta verið um 4.600.

Þrátt fyrir þessa fækkun í ár segist Þórhallur ekki gera ráð fyrir að þetta marki upphafið að endalokum ferðaþjónustu í fjallaskálum fyrir austan. Segir hann fjalla- og göngulífið vera ákveðin lífsstíl. „Ég hef trú á að gönguferðirnar komi upp aftur,“ segir hann og bætir við að hann hafi trú á bæði fjölgun Íslendinga og erlendra ferðamanna á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka