Landsréttur staðfesti í dag tveggja og hálfs árs fangelsisdóm Héraðsdóms Vesturlands yfir erlendum karlmanni fyrir að nauðga konu á Akranesi í júlí á síðasta ári. Maðurinn, Eldin Skoko, var einnig dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.
Skoko nýtti sér yfirburðastöðu sína gagnvart konunni sem ekki gat spornað gegn verknaðinum sökum ölvunar, máttleysis og slævðrar meðvitundar að því er segir í dómnum. Þar segir að Skoko hafi komið að konunni í annarlegu ástandi liggjandi í innkeyrslu og farið með hana inn í dvalarstað sinn, klætt hana út fötunum og síðan haft við hana samræði.
Skoko, sem er frá Makedóníu, hefur sætt farbanni á meðan málið hefur verið til meðferðar fyrir dómstólum á þeim forsendum að miklar líkur hafi verið á því að hann gæti yfirgefið landið þar sem hann hefði engin tengsl við það og hefði ekki atvinnuleyfi hér á landi.
Skoko var einnig dæmdur til að greiða tæpar þrjár milljónir í málskostnað.