Fjárveitingar fylgja raunvexti

Framlög ríkisins til sjúkrahússins verða 65,4 milljarðar kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi …
Framlög ríkisins til sjúkrahússins verða 65,4 milljarðar kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi komandi árs. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Rekstur spítalans verður áfram talsverð áskorun þó svo að í fjárlagafrumvarpinu sé margt mjög jákvætt. Það er til dæmis mjög ánægjulegt að brugðist sé við óskum okkar um aukið rekstrarfé í samræmi við raunvöxt í starfseminni, sem helgast einkum og helst af þeirri lýðfræðilegu breytingu að þjóðin er að eldast. Áhrifin af slíku koma fljótt fram í heilbrigðisþjónustunni,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Framlög ríkisins til reksturs Landspítalans á næsta ári verða 71,3 milljarðar kr. skv. fjárlagafrumvarpi komandi árs eða 65,4 milljarðar að teknu tilliti til sértekjuáætlunar, samanborið við 61,8 milljarða að teknu tilliti til sértekna 2018. Þá verður 7,2 milljörðum króna varið til nýbygginga sjúkrahússins við Hringbraut, en þær framkvæmdir eru nú að hefjast.

Aukavaktir eru dýrar

„Það er gott að sjá að Hringbrautarverkefnið er fjármagnað. Einnig er mjög jákvætt að aukið fé fáist í göngudeildarstarfsemi okkar, en þann þátt í starfseminni hyggjumst við efla. Einnig verður áfram auknum fjármunum varið í viðhald bygginga og tækjakaup, en hvort tveggja er afar mikilvægt. Við fáum líka ákveðið fé til starfsmannamála, en mönnun, einkum í hjúkrun, hefur lengi verið vandamál á spítalanum,“ segir Páll og heldur áfram:

„Við þær aðstæður þegar vantar hjúkrunarfræðinga þá þarf að ræsa út aukavaktir, sem bæði skapar aukið álag og er dýrt. Þegar hallarekstur er á spítalanum þá er það aðallega vegna dýrrar aukavinnu, sem þó er óhjákvæmileg. Því höfum við verið að reyna að breyta vinnufyrirkomulagi og gera starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga meira aðlaðandi í breiðum skilningi.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/​Hari

Páll segir mikinn niðurskurð eftir hrunið hafa sett sitt mark á alla starfsemi Landspítalans og áhrifa þess gæti enn í dag. „Við burðumst enn með hlass hrunsins eins og margar aðrar stærri stofnanir, en frá árinu 2013 hefur verið bætt í framlögin til spítalans á ári hverju sem er vel. Í fjárlögum næsta árs fáum við síðan meiri fjármuni en gert var ráð fyrir sl. vor þegar fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára var kynnt. Og svo allrar sanngirni sé gætt þá munar einnig um að auknum fjármunum verði varið til heilsugæslunnar og til hjúkrunarheimila; slíkt léttir á Landspítalanum því heilbrigðiskerfið er allt ein heild.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert