Lána spítala lækningatæki

Bjarni Valtýsson svæfingalæknir og Sigurður Ásgeir Kristinsson bæklunarlæknir.
Bjarni Valtýsson svæfingalæknir og Sigurður Ásgeir Kristinsson bæklunarlæknir. mbl.is/Eggert

Sigurður Ásgeir Kristinsson, bæklunarlæknir hjá meðferðastöðinni Corpus Medica, segir brýnt að taka á vanda þúsunda sjúklinga sem þjást af langvarandi bak- og stoðkerfisverkjum.

Sjúkratryggingar Íslands taki ekki þátt í kostnaðinum þegar þeir leita sér aðstoðar sérfræðilækna. Það komi skýrt fram hjá sjúklingum Corpus Medica að þótt kostnaðurinn sé hlutfallslega lítill sé hann íþyngjandi fyrir marga. Sumir treysti sér ekki í viðtal, hvað þá meðferð, vegna kostnaðar.

Corpus Medica starfar samkvæmt tilvísunum að eigin frumkvæði og er utan samnings hjá Sjúkratryggingum Íslands. Sigurður Ásgeir bendir á að hluti þjónustunnar við slíka sjúklinga eigi betur heima hjá sérfræðingum en á spítölum. Hún sé enda ódýrari og skilvirkari. Á spítölum sé hins vegar betur hægt að takast á við erfiðustu tilvikin og bjóða sjúklingum þverfaglega þjónustu. Miðað við núverandi biðlista geti það tekið sjúklinga langan tíma að komast á sjúkrahús í slíka meðferð.

Sigurður Ásgeir og meðeigandi hans í Corpus Medica, Bjarni Valtýsson svæfingalæknir eru einu sjálfstætt starfandi læknarnir, ásamt Bjarka Karlssyni, bæklunarlækni á Akureyri, sem sinna verkjameðferð. Bjarki hafi áhuga á að leggjast á árarnar með Corpus Medica en ekki meðan ekki er samningur við læknana.

„Það skapast tvöfalt heilbrigðiskerfi ef hluti sjúklinga á ekki rétt á endurgreiðslu gagnvart sínu vandamáli þegar aðrir sjúklingar með önnur vandamál eiga það. Sjúklingar eins og okkar eiga engan endurgreiðslurétt og það er enginn annar sem getur sinnt þeirra vandamálum nema Bjarki sem starfar á Akureyri. Hann sinnir aðeins hluta af þessum vandamálum. Það er mjög óeðlilegt að sjúklingar á stærsta þéttbýlissvæði landsins þurfi að leita til Akureyrar. Heilbrigðisráðherra hefur sagt að það eigi að ríkja jafnræði fyrir alla sjúklinga, hvar sem þeir búa á landinu. Við erum í öflugu samstarfi við bakdeildina í Stykkishólmi þar sem sprautumeðferðir fara ekki lengur fram,“ segir Sigurður Ásgeir.

Hann segir Corpus Medica lána Landspítala lækningatæki sem Bjarni Valtýsson notar þar í hlutastarfi. Tæki spítalans sé bilað. Fulltrúar VG ályktuðu nýverið að stefna bæri að heilbrigðisþjónustu án hagnaðarsjónarmiða. Sigurður Ásgeir segir aðspurður að hagnaður hafi þríþætt hlutverk fyrir fyrirtæki. Til að greiða niður skuldir, til að fjárfesta og/eða að greiða arð.

„Við Bjarni höfum persónulega lagt milljónir í þetta fyrirtæki. Meðal annars keypt tæki og dýran innbúnað. Þótt við reiknum okkur eðlileg laun og rukkum efniskostnað, og annað slíkt, þurfum við að standa undir fjárfestingunni. Þannig að þegar við hættum höfum við ekki gengið á okkar persónulega sjóð. Það er eðlilegt að það sé hagnaður sem endurgreiðir okkur fjárfestinguna,“ segir Sigurður Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert