Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir skrif þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem birtust í Morgunblaðinu í gær hreina og beina árás á heilbrigðisráðherra og að þar sé um grimma stjórnarandstöðu að ræða. Þetta kom fram í máli hennar í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun.
Gestir þáttarins, auk Rósu Bjarkar, voru þau Óli Björn Kárason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Helga Vala Helgadóttir. Egill Helgason þáttastjórnandi gerði meðal annars að umræðuefni þær deilur sem uppi eru í tengslum við heilbrigðiskerfið. Hann nefndi afdráttarleysi Sjálfstæðismanna í skoðunum sínum á málinu og vísaði í grein þeirra Jóns Gunnarssonar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Brynjars Níelssonar sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag. Þar er heilbrigðisráðherra harðlega gagnrýndur.
„Við vitum það og vissum það, þegar við gengum til samstarfs, þessir þrír flokkar, þetta eru ólíkir flokkar og auðvitað gerði ég mér grein fyrir því hvaða skoðanir Svandís Svavarsdóttir […] hafði á íslensku heilbrigðiskerfi, en það verður að vera sæmileg skynsemi í því sem þar er verið að gera,“ sagði Óli Björn, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Rósa Björk sagði að í grein þingmannanna þriggja sem vísað hefur verið til, sem og í greinaflokki Óla Björns, sé um að ræða mjög grimma stjórnarandstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins gegn Svandísi og stefnu hennar í heilbrigðismálum. „Þetta er eitt af því sem ég óttaðist þegar ég gagnrýndi þetta stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði aldrei tilbúinn í þær kerfisbreytingar sem hefur verið kallað eftir í íslensku samfélagi á árunum eftir hrun.“
„Mér finnst þessi grein sem birtist í gær í Morgunblaðinu, sem þrír þingmenn skrifa undir […], ekki vera gagnrýni, mér finnst þetta vera árás á heilbrigðisráðherra. […] Þarna er um að ræða orðalag sem ekki er hægt að túlka sem annað en beina árás,“ sagði Rósa Björk og velti því fyrir sér hvort þingmennirnir fjórir, Jón, Áslaug Arna, Brynjar og Óli Björn, ætluðu sér að styðja frumvörp frá heilbrigðisráðherra í tengslum við breytingar á heilbrigðiskerfinu.
Helga Vala greip inn í og sagði þetta gott dæmi um það ósætti sem ríkti innan ríkisstjórnarinnar. Annað dæmi um það sagði hún vera hugmyndir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um bætt fjölmiðlaumhverfi, sem kynntar voru daginn eftir að fjárlög fyrir 2019 voru kynnt, enda væri ekki einu orði minnst á áætlanir Lilju í fjárlögum.