Plástur á umhverfissárið

Fjölskyldan öll heima í Sviss; hjónin Ögmundur Hrafn Magnússon og …
Fjölskyldan öll heima í Sviss; hjónin Ögmundur Hrafn Magnússon og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, ásamt börnunum þremur sem heita Þorgerður Erla (10 ára), Magnús (5 ára) og Theodór Hrafn (4 ára).

Þóru Mar­gréti Þor­geirs­dótt­ur óraði ekki fyr­ir því að hún yrði týp­an sem mætti með fjöl­nota ílát í kjör­búðina þegar hún byrjaði að minnka sorpið hjá fjöl­skyld­unni. Hún seg­ir end­ur­vinnslu á plasti í raun aðeins vera plást­ur á um­hverf­is­sárið og stefn­ir í átt að ruslfrí­um lífs­stíl.

Þóra held­ur úti skemmti­legu bloggi þar sem hún seg­ir frá veg­ferð fjöl­skyld­unn­ar í að minnka plastið á heim­il­inu. Und­ir­t­it­ill­inn er lær­dóms­ferli fjöl­skyldu enda er öll fjöl­skyld­an með í þessu. Hún býr á Genfar­svæðinu í Sviss en fjöl­skyldufaðir­inn, Ögmund­ur Hrafn Magnús­son, vinn­ur hjá EFTA. Börn­in eru þrjú, Þor­gerður Erla, tíu ára, Magnús, fimm ára, og Theo­dór Hrafn, fjög­urra ára. Sá yngsti fædd­ist úti en miðju­barnið var aðeins tveggja mánaða þegar þau fluttu út. Stefn­an er síðan tek­in aft­ur til Íslands á næsta ári.

Eitt af því sem er öðru­vísi í Sviss er „afar tak­mörkuð en gjald­frek op­in­ber sorpþjón­usta sem hvet­ur fólk til að flokka og minnka ruslið sitt,“ eins og ein blogg­færsl­an heit­ir. Þóra seg­ir að sorp­hirðukerfið hvetji fólk sann­ar­lega til að flokka vel enda þurfi að henda óflokkuðu sorpi í sér­staka poka sem kosta 300 kr. stykkið.

„Því minna af óflokkuðu sorpi, því færri poka þarf að kaupa. Þar að auki ber­um við ábyrgð á að koma bæði flokkuðu og óflokkuðu sorpi í sér­staka gáma í ná­grenn­inu, því eng­ir sorp­bíl­ar bruna á milli húsa til að hirða það. Þetta þýðir auðvitað að maður er í meiri snert­ingu við sorpið sitt, það hverf­ur ekki bara alltaf á tveggja vikna fresti,“ seg­ir Þóra og út­skýr­ir að það sé ekki hægt að kom­ast hjá því að vera meðvitaður um um­fang heim­il­iss­orps­ins þegar þurfi að keyra með það á end­ur­vinnslu­stöðina.

„Ég tel afar lík­legt að þetta hafi haft þau áhrif að við vor­um opn­ari og mót­tæki­legri en ella fyr­ir því sem ruslfrír lífs­stíll, eða „zero waste“ stend­ur fyr­ir og að ganga lengra en að flokka bara sorpið vel,“ seg­ir Þóra.

Byrjuðu í meist­ara­mánuðinum

Þau byrjuðu að taka flokk­un­ina fast­ari tök­um í meist­ara­mánuðinum 2017 en þá settu þau sér það mark­mið að sorp­flokk­un­in þeirra mætti ekki fara yfir ákveðið magn. Hún sagði frá þessu á Face­book-síðu sinni og deildi upp­lýs­ing­um um verk­efnið.
„Þegar á leið fann ég fyr­ir áhuga fólks í kring­um mig og fékk ábend­ingu um að kannski hefðu fleiri áhuga á að fylgj­ast með þessu lær­dóms­ferli okk­ar og úr varð að við stofnuðum við sér­staka Face­book-síðu um verk­efnið og heimasíðuna minnasorp.com,“ seg­ir Þóra og bæt­ir við að það sé ekki síður skemmti­legt og mik­il­vægt að fá á móti ábend­ing­ar og hug­mynd­ir frá öðrum.

„Við höf­um alltaf horft á þetta verk­efni sem lær­dóms­ferli og það er fullt af fólki sem kann miklu bet­ur á þenn­an lífs­stíl en við. Á sama tíma finn­um við fyr­ir því að Face­book-síðan veit­ir okk­ur ákveðið aðhald. Þess vegna ákváðum við að stofna Face­book-hóp­inn Sorpsigr­ar, þar sem aðrir geta birt sín­ar eig­in sorp­töl­ur með reglu­bundn­um hætti líkt og við höf­um gert og fengið þannig sams­kon­ar aðhald og við upp­lif­um. Hóp­ur­inn er enn til og er öll­um op­inn en auðvitað bygg­ist svona síða á virkni meðlima. Ég mæli ein­dregið með að sem flest­ir skrái sig í hóp­inn og sýni þar til dæm­is mynd­ir af plast­magni heim­il­is­ins eft­ir Plast­laus­an sept­em­ber.“

Mik­il­væg­ast að kaupa minna

Önnur ástæða þess að Þóra vildi taka sorpið föst­um tök­um er að hún vildi ekki bíða eft­ir lausn­um frá yf­ir­völd­um eða fyr­ir­tækj­um held­ur gera eitt­hvað sjálf. Hún heyrði af Bea John­son, frum­kvöðli hvað varðar ruslfrí­an lífs­stíl og tók hana sér til fyr­ir­mynd­ar. „Ég fann að þetta væri ákveðinn lífs­stíll sem ég gæti til­einkað mér. Mig langaði að gera eitt­hvað meira sjálf varðandi þenn­an um­hverf­is­vanda. John­son seg­ir að það sé mik­il­vægt að end­ur­vinna en end­ur­vinnsla geti ekki verið annað en plást­ur á um­hverf­is­sárið, eða eins og hún seg­ir „aspi­rín fyr­ir neyslutimb­ur­menn­ina“. Það verður að grípa inn í fyrr í ferl­inu til að ráðast á vand­ann og huga að neysl­unni. Núm­er eitt, tvö og þrjú er að kaupa minna. Þá verður til minna rusl.“

Og hvernig ger­ir maður það?

„Þá þarftu að vera svo­lítið vak­andi og hugsa um hvaða vör­ur eru til að upp­fylla al­vöru þarf­ir og hvaða vör­ur eru í raun til að upp­fylla gerviþarf­ir og veita skyndi­ánægju. Maður verður að vera sveigj­an­leg­ur,“ seg­ir Þóra og út­skýr­ir að henni finn­ist skyr gott til dæm­is til að nota í skyr­drykki og það fá­ist þarna úti í plast­umbúðum. Hún kaup­ir sér það sjaldn­ar en hún gerði en býr þá til græn­an drykk í staðinn fyr­ir skyr­drykk, sem krefst þess ekki að hún kaupi neitt plast.

Tæki­færi í gjöf­um

Hún seg­ir að nán­ustu vin­ir og ætt­ing­ar hafi sýnt verk­efn­inu mik­inn áhuga og vilji síður stuðla að auknu heim­il­iss­orpi hjá þeim.
„Það hafa þeir til dæm­is sýnt með tæki­færis­gjöf­um til okk­ar. Í pökk­um hafa til dæm­is leynst ýms­ar vist­væn­ar vör­ur, leik­húsmiðar og notaðar bæk­ur. Gjöf­un­um er þá gjarn­an pakkað inn í fjöl­nota poka eða gaml­an end­ur­nýtt­an papp­ír. Að ógleymd­um blóm­vönd­um sem ekki hef­ur verið pakkað inn. Svo er einn góður vin­ur okk­ar sem tek­ur það rusl sem mynd­ast vegna hans í heim­sókn hans hjá okk­ur, og fer með það heim til sín! Þetta hef­ur komið okk­ur skemmti­lega á óvart því við höf­um ekki gert neina kröfu um að fólk sýni verk­efn­inu okk­ar sér­stak­an skiln­ing, þannig að við kunn­um svo sann­ar­lega að meta þessa til­lits­semi,“ seg­ir Þóra og bæt­ir við að þau hafi hins­veg­ar orðið vör við það að þeir sem standi þeim fjær séu feimn­ari við þetta.

„Við héld­um til dæm­is upp á fimm ára af­mæli son­ar okk­ar í sum­ar og þegar við vor­um spurð hvað hann vildi þá nefnd­um við að við vær­um að reyna að minnka sorpið okk­ar og að við vær­um mikið fyr­ir end­ur­vinnslu og end­urnýt­ingu. Við lögðum til að gest­ir kæmu til dæm­is með leik­föng sem þeir væru hætt­ir að nota. Þegar gjaf­irn­ar voru svo tekn­ar upp kom í ljós að fólk var greini­lega ekki al­veg til í þetta. Ég veit ekki af hverju, kannski ein­hver hræðsla hjá viðkom­andi aðilum um að vera álitn­ir nísk­ir eða fá­tæk­ir?“ seg­ir Þóra og velt­ir fyr­ir sé hvort hún þurfi að senda skýr­ari skila­boð.

„Maður vill ekki vera leiðin­leg­ur. Það er erfitt í sam­skipt­um að koma þess­um skila­boðum áleiðis og maður er ekk­ert að taka það nærri sér eða vera pirraður yfir því ef það geng­ur ekki. Það er þá bara frek­ar að sýna for­dæmi. Við gef­um til dæm­is bíómiða, bæk­ur, spil, eitt­hvað sem er ekki búið til úr plasti og ekki raf­tæki.“

Hver og einn get­ur haft áhrif

Hvað varðar sér­stak­ar aðgerðir ein­stak­linga í tengsl­um við um­hverf­is­vand­ann þá get­ur hvert og eitt okk­ar haft áhrif til dæm­is með breyttri kaup­hegðun, færri ut­an­lands­ferðum, um­hverf­i­s­vænni sam­göng­um, kol­efnis­jöfn­un og með því að koma með ábend­ing­ar um úr­bæt­ur í nærum­hverfi okk­ar, seg­ir Þóra. „Við eig­um til dæm­is ekki að hika við að vera í meiri sam­skipt­um við fram­leiðend­ur og mat­vöru­versl­an­irn­ar okk­ar, hvort sem það er með sím­hring­ing­um, tölvu­pósti eða sam­tali við starfs­fólk, og kalla eft­ir auknu fram­boði á vist­vænni vör­um og umbúðum. Það er þó afar mik­il­vægt að þess­um ábend­ing­um sé komið á fram­færi með vin­sam­leg­um hætti þannig að á þær sé hlustað,“ seg­ir hún og bend­ir á að eft­ir því sem eft­ir­spurn­in breyt­ist þá breyt­ist von­andi líka fram­boðið.

Nán­ar er talað við Þóru í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina þar sem hún gef­ur m.a. góð ráð til þess að minnka sorpið.

Það þarf ekki að nota plastpoka við garðvinnuna heldur er …
Það þarf ekki að nota plast­poka við garðvinn­una held­ur er vel hægt að nota marg­nota ílát.
Þessar sápur eru ekki aðeins fallegar heldur þurfa þær engar …
Þess­ar sáp­ur eru ekki aðeins fal­leg­ar held­ur þurfa þær eng­ar plast­umbúðir.
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert