Án krabbameinslyfja dögum saman

Lára Guðrún hringdi í öll apótek í bænum til að …
Lára Guðrún hringdi í öll apótek í bænum til að finna krabbameinslyfið sitt. Ljósmynd/Hallur Karlsson

„Þessi lyf eru æxlishemjandi og minnka estrógenframleiðslu í líkamanum. Fyrir utan það að senda líkamann í hormónarás fram og til baka þá mögulega mjólkar þetta þær krabbameinsfrumur sem gætu verið eftir,“ segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir.

Hún greindi frá því í Facebook-færslu í gær að konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein neyðist til að vera lyfjalausar dögum saman því andhormónalyfin fáist ekki á landinu eða séu enn föst í vöruhúsi.

Exemestan er það lyf sem flestar konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein eru vanar að taka. Það er væntanlegt í apótek 1. október. Aromasin, sem er frumlyfið, kom í apótek í dag. Það er hins vegar tugþúsundum krónum dýrara en samheitalyfið og vissi Lára Guðrún ekki af tilvist þess fyrr en hún þurfti á dögunum að hringja í öll apótek á höfuðborgarsvæðinu í leit að Exemestan. Hún var svo heppin að finna einn skammt af Aromasin eftir langa leit.

„Tíma mínum hefði verið betur varið í að sinna fjölskyldu og starfi, í stað þess að þurfa að vera að hringja í hvert einasta apótek í bænum með kökk í hálsinum af því krabbameinslyfin mín voru ekki til,“ segir Lára Guðrún. Hún segir krabbameinsmeðferð strembið ferli og að það sé fáránlegt að í kjölfar meðferðar þurfi konur að eltast við lífsnauðsynleg lyf í ofanálag.

Skiptast á lyfjaspjöldum á Facebook

Lára Guðrún er í Facebook-hóp fyrir konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein. Þar þurfti kona að óska eftir spjaldi að láni því hún var búin að vera lyfjalaus í þrjá daga og var hætt að standa á sama. „Aukaverkanir af þessu lyfi geta verið erfiðar að tækla, hitakóf, einbeitingarleysi, svefnleysi, gigt og stirðleiki í líkamanum. Við erum sendar í tíðahvörf, þær sem eru ekki þegar farnar í tíðahvörf.“

Hún segist sem betur fer ekki hafa þurft að upplifa hver fráhvörfin frá lyfinu eru vegna þess að hún hafi fundið síðasta skammtinn af Aromasin. „Ég á 100 daga skammt, nema auðvitað einhver þurfi spjald, þá er ég bara hér.“

Lára Guðrún segir mikla samstöðu innan hópsins. „Við vitum að þetta er ekki eitthvað sem hægt er að leika sér með. Þetta snýst um líf og framtíð okkar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert