Heildsölum skylt að útvega nauðsynleg lyf

Svandís svaraði fyrirspurn Guðmundar Andra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi …
Svandís svaraði fyrirspurn Guðmundar Andra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nýtt frumvarp er væntanlegt um heildarendurskoðun á lyfjalögum. Þar verður sérstaklega fjallað um skýran áskilnað gagnvart heildsölum um að skila lífsnauðsynlegum lyfjum inn á markað. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi spurnum sínum til heilbrigðisráðherra og vildi vita hvort þess væri að vænta að tekið yrði á þeim skorti á lífsnauðsynlegum lyfjum sem reglulega kemur upp hér á landi. „Er hugsanlega hægt að herða kröfur sem gerðar eru til lyfjainnflytjenda og lyfsala almennt?“ var meðal spurninga sem Guðmundur Andri velti upp.

Guðmundur Andri beindi spurnum sínum til heilbrigðisráðherra.
Guðmundur Andri beindi spurnum sínum til heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís sagðist sjálf hafa verið hissa á algengi vandamálsins á Íslandi. Hún sagði nýtt frumvarp um heildarendurskoðun á lyfjalögum væntanlegt, og að þar væri sérstaklega tekið á atriðum í þeim anda sem Guðmundur Andri nefndi. „Það er að segja að það sé skýrari áskilnaður gagnvart heildsalanum um það að skila þessum lyfjum inn á markaðinn.“

„Ég hef óskað eftir því við skrifstofu gæða og forvarna að þetta mál verði sérstaklega tekið fyrir á næsta samráðsfundi með lyfjastofnun. Þar verður farið yfir það hvað er til ráða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka