Þriðji orkupakkinn varði ekki eignarrétt

Ráðherra segir greinargerðina í ágætu samræmi við álit annarra helstu …
Ráðherra segir greinargerðina í ágætu samræmi við álit annarra helstu sérfræðinga. mbl.is/​Hari

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins leggur ekki skyldu á íslensk stjórnvöld um að tengjast innri raforkumarkaði ESB með sæstreng og reglur hans varða ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi, samkvæmt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar lögmanns, sem unnin var að beiðni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Greinargerðin var birt á vef stjórnarráðsins síðdegis í dag og þar er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra að greinargerðin sé ítarleg, setji málið í gott heildarsamhengi og svari að hennar mati vel helstu spurningum sem fram hafa komið, auk þess sem ráðherra sýnist hún vera í „ágætu samræmi við það sem aðrir helstu sérfræðingar hafa sagt um málið“.

„Ég nefni minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar lögmanns til ráðuneytisins í apríl síðastliðnum, framsögu Kristínar Haraldsdóttur, forstöðumanns Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, á ráðstefnu á vegum skólans nú í ágúst og nýlega grein Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, í Úlfljóti,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

Hún segist jafnframt telja að á grundvelli þess sem hefur komið fram um málið sé ekki að sjá að innleiðing þriðja orkupakkans í íslensk lög fæli í sér meiri háttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki, en að hún telji að almennt þurfi „afar sterk rök til að hafna með öllu“ upptöku ESB-gerðar í EES-samninginn, sem talin er varða innri markaðinn.

„Það væri í fyrsta skipti frá upphafi sem við gerum það og ekki ljóst hvert það myndi leiða,“ segir Þórdís Kolbrún.

Fullyrðingar um eðlisbreytingar hvíli ekki á traustum grunni

Á meðal annarra niðurstaðna í greinargerð Birgis Tjörva, utan þeirra sem hér komu fram í upphafi, er að reglur um samkeppni, bann við ríkisaðstoð, neytendavernd og fleira takmarki þegar svigrúm íslenskra stjórnvalda í raforkumálum, en takmarkanirnar hafi þegar verið leiddar í lög hér á landi sem hluti af grunnreglum EES-samningsins og reglum fyrsta og annars orkupakkans.

Samkvæmt greinargerðinni verður þannig ekki séð að fullyrðingar um að þriðji orkupakkinn feli í sér eðlisbreytingar hvað þetta varðar „hvíli á traustum grunni“.

Raunar leiðir athugun Birgis Tjörva á reglum orkupakkans ekki heldur í ljós grundvallarfrávik frá þeirri stefnumörkun sem fólst í innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans á sínum tíma, né styður athugun á innihaldi hans sjónarmið um að innleiðing hans „fæli í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun EES-samningsins,“ eins og það er orðað í umfjöllun um helstu niðurstöður á vef Stjórnarráðsins.

Til stendur að leggja fram þingmál í febrúar næstkomandi, sem varða innleiðingu þriðja orkupakkans hérlendis.

Greinargerð Birgis Tjörva í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert