Segir tillögu Eyþórs ekki framsækna

Anna Sigrún Baldursdóttir segir það fásinnu að Reykjavíkurborg fari að …
Anna Sigrún Baldursdóttir segir það fásinnu að Reykjavíkurborg fari að blanda sér í hugmyndafræðileg átök sem geisi í ríkisstjórnarsamstarfinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala, segir að tillaga Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sé ekki framsækin sáttatillaga, eins og Eyþór sjálfur lýsir henni í frétt Morgunblaðsins í dag.

Eyþór leggur til á borgarstjórnarfundi í dag að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að velja heppilegan stað fyrir uppbyggingu á öðru sjúkrahúsi í borginni, með því að skipa starfshóp sem ætti að komast að niðurstöðu með tilliti til samgangna, íbúa- og atvinnuþróunar og öryggismála.

Anna Sigrún segist í færslu á Facebook-síðu sinni ekki vita hverjir eigi að sættast með þessari tillögu, en að það verði að minnsta kosti ekki þeir sem eru ósáttir við staðsetningu LSH við Hringbraut, þeir verði áfram ósáttir með hana.

Í tillögu Eyþórs er lagt til að staðarval fyrir nýjan framtíðarspítala verði unnið í samstarfið við ýmsa aðila, meðal annars sjálfstætt starfandi lækna.

Anna Sigrún segir að áhersla Eyþórs í þessu samhengi sé vísbending um að þarna sé á ferðinni tillaga um uppbyggingu sjúkrahúss fyrir sérgreinalækna og að því leytinu til sér hún lítið framsækið við tillöguna.

„Þetta er ekki framsækið þar sem sú hugmynd hefur áður verið viðruð og horft til gamla Borgarspítalans í því tilliti,“ skrifar Anna Sigrún og bæti við að það sé „fásinna“ að Reykjavíkurborg taki forystu og með því afstöðu í þeim „hugmyndafræðilegu átökum sem nú geysa [sic] í ríkisstjórnarsamstarfinu.“



Uppfært kl. 14:10:  Upphaflega var farið rangt með starfsheiti Önnu Sigrúnar og hún sögð ritari forstjóra Landspítala. Hið rétta er að hún er aðstoðarmaður forstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert