Jáeindaskanninn á Landspítalanum við Hringbraut var tekinn í notkun í síðustu viku. Pétur H. Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild Landspítala, staðfestir í samtali við mbl.is að byrjað sé að nota skannann og að níu sjúklingar hafi þegar gengist undir rannsókn í tækinu, en Fréttablaðið greindi fyrst frá í dag.
Tilkoma jáeindaskannans breytir miklu fyrir fjölmarga íslenska sjúklinga, en í fyrra fóru yfir 200 sjúklingar til Danmerkur til þess að gangast undir rannsókn í jáeindaskanna á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.
„Það mun náttúrlega alveg hætta,“ segir Pétur, en bætir við að keyrslan á jáeindaskannanum hafi ekki verið alveg „trygg“ fyrstu dagana og því séu einhverjir sjúklingar sem hafi þegar verið búnir að skipuleggja ferðir utan til þess að gangast undir rannsóknir á næstunni.
„Það var ekki fyrr en í dag að sett var tilkynning á vef Landspítala að unnt sé að biðja um rannsóknir í hann,“ segir Pétur, en sex til sjö starfsmenn Landspítala koma að vinnu við jáeindaskannann á degi hverjum.
Jáeindaskanninn var að stærstum hluta gjöf til spítalans, eða öllu heldur þjóðarinnar, frá Íslenskri erfðagreiningu og kostar í heildina rúman milljarð króna. Skóflustunga að byggingunni sem hýsir jáeindaskannann var tekin í janúar árið 2016 og þá var talað um að hægt yrði að taka hann í notkun um það bil ári síðar, eða um áramótin 2016-17.
Pétur segir að ef til vill hafi það verið óskhyggja að telja að verkið tæki svo skamman tíma. „Það er mjög vanalegt og eðlilegt að það taki þrjú ár að koma svona starfsemi af stað og líklega mjög óvanalegt að það taki skemmri tíma en það,“ segir Pétur.
„Þetta reyndist bara vera þannig verkefni að það tekur þennan tíma að koma þessu í gagnið og við erum bara á svipuðu róli og allir aðrir í þessu. Það tók um ár að byggja bygginguna og koma grunntækjunum í hana og þá er náttúrlega mjög mikið eftir. Þetta er allt saman nokkurn veginn eins og hefði mátt gera ráð fyrir í byrjun,“ segir Pétur.
„Ef að einhver fréttamaður myndi nú taka sig til og hringja á nokkra staði í Skandinavíu og spyrja hvað þetta ætti að taka langan tíma myndi hann komast að því að þetta er í góðum tíma. Þetta hefur gengið mjög vel.“