Reykjavík er önnur dýrasta borg í Evrópu samkvæmt ferðavefnum Wanderu og fylgir þar á hæla Mónakó sem er dýrasta borgin. Á eftir Reykjavík koma Dublin, Amsterdam, London, París, Kaupmannahöfn og Helsinki, en stuttu neðar á listanum eru hinar norrænu höfuðborgirnar, Stokkhólmur og Ósló.
Ódýrasta borgin er hins vegar Skopje í Makedóníu og á hæla hennar fylgja fleiri austurevrópskar borgir, Pristína í Kósóvó, Podgorica í Svartfjallalandi, Yerevan í Armeníu og Chisinau í Moldavíu.
Samkvæmt forsvarsmönnum síðunnar byggja útreikningarnir á meðalverði fyrir hótel, leigubíla, almenningssamgöngur, mat, bjór, kaffi og aðgangseyri að söfnum.
Meðalverð fyrir einnar nætur hótelgistingu fyrir einn í Reykjavík er rúmar 317 evrur samkvæmt síðunni, eða rúmar 40 þúsund krónur. Meðalverðið fyrir hótelgistingu í Skopje er hins vegar tæpar 54 evrur, eða tæpar sjö þúsund krónur. Meðalhótelverðið í Mónakó er þá rúmar 390 evrur samkvæmt Wanderu.
Sé litið til aðgangseyris að söfnum Reykjavíkurborgar, þar sem hann var hæstur, er hann að meðaltali 28 sinnum hærri en aðgangseyririnn í Chisinau í Moldavíu, þar sem hann var lægstur. Þannig er meðalaðgangseyrir að söfnum í Reykjavík rúmar 13 evrur, tæpar 8 evrur í Mónakó, sem er dýrasta borgin, og rúm fimmtíu evrusent í Chisinau. Kostnaður við safnaheimsóknir í Vín í Austurríki nálgast miðaverðið í Reykjavík, en þetta eru einu tvær borgirnar þar sem meðalmiðaverðið fer yfir 13 evrur.
Bjórinn þykir líka dýr í Reykjavík, en fyrir einn bjór í Reykjavík má fá eina 12 bjóra í Kíev í Úkraínu, Chisinau í Moldavíku, Tiblisi í Georgíu og Baku í Aserbaísjan.
Eins kostar þriggja rétta kvöldverður á miðlungsveitingastað í Reykjavík allt að sjö sinnum meira en þriggja rétta máltíð á veitingastað í Ankara í Tyrklandi, þar sem máltíðin er ódýrust. Meðalverð slíkrar máltíðar í Ankara er rúmar sex evrur á móti 48 evrum í Reykjavík. Dýrastur er þó maturinn í Mónakó þar sem meðalverðið er 50 evrur.