Þyrlan kölluð út vegna slyss á Snæfellsnesi

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rétt fyrir hádegi vegna slyss sem varð við Kirkjufell á Snæfellsnesi eftir að maður féll í fjallinu. 

Mikill viðbúnaður er við Kirkjufell að því er RÚV hefur eftir lögreglunni á Vesturlandi og eru björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn og lögregla á staðnum, en ekki hefur verið gefið upp hve alvarleg meiðslin eru.

„Björgunarsveitir á Snæfellsnesi eru komnar á staðinn fyrir þó nokkru síðan og hafa síðasta klukkutímann verið að fylgja samferðafólki hins slasaða niður,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Þrjár björgunarsveitir á Snæfellsnesi koma að aðgerðum við Kirkjufell ásamt fólki frá björgunarsveitum úr Reykjavík.

Segir Davíð Már m.a. unnið að því að tryggja vettvanginn og eins hafi þurft að loka fyrir umferð.

Sérhæfðir fjallabjörgunarmenn komu með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík, sem og fólk frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er bratt fjall og aðstæður geta verið krefjandi uppi í hlíðunum og því er þetta gert til að tryggja öryggi þeirra sem eru að athafna sig þar,“ segir Davíð Már og kveður menn nú vera að undirbúa að koma hinum slasaða niður.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert