Þau eiga engra hagsmuna að gæta en tóku sig samt til og slógu Laugarneshólinn sem var kominn á kaf í kerfil og njóla. Hóllinn sá geymir dýrmætar æskuminningar systkinanna Þuríðar og Gunnþórs sem fæddust þar og ólust upp.
„Okkur er annt um þetta svæði og það fer fyrir brjóstið á okkur virðingarleysið sem felst í því að hirða ekki um það. Virðingarleysi fyrir þeim sem hvíla í kirkjugarðinum og fyrir þeim búsetuminjum sem þarna eru og eiga samkvæmt lögum að vera aðgengilegar fyrir almenning. Þarna er af mörgum talinn fyrsti kirkjugarður borgarinnar sem er friðlýstur og Laugarneshóllinn er líka friðlýstur.
Samkvæmt lögum á landeigandinn, Reykjavíkurborg, að sjá um að hirða Laugarnesið, en það hefur ekki verið gert árum saman,“ segir Þuríður Sigurðardóttir, en henni og Gunnþóri bróður hennar var nóg boðið að horfa upp á óhirtar æskustöðvar sínar, Laugarneshólinn, svo þau tóku sig til og slógu hann og unnu á nærri mannhæðar háum kerfli sem fengið hefur að vaxa þar óáreittur.
Sjá viðtal við Þuríði Sigurðardóttir í heild í Morgunblaðinu í dag.