Árleg æfing sprengjusérfræðinga, Northern Challenge, er haldin á Suðurnesjum um þessar mundir. Frá þessu er greint á heimasíðu Landhelgisgæslu Íslands.
Um er að ræða alþjóðlega NATO-æfingu sem Landhelgisgæslan stýrir og fer hún fram á starfssvæði Gæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hafnarsvæðum í Helguvík, Höfnum, Garði og í Hafnarfirði. Þetta er í sautjánda sinn sem æfingin er haldin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur í fréttinni að tilgangur Northern Challenge sé að æfa viðbrögð við hryðjuverkaárásum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim og aðstæður hafðar eins raunverulegar og kostur er. Æfingin fer fram við fjölbreyttar aðstæður, t.d. á flugvelli, í höfnum, í skipi og við bryggju.