Wow air mun fljúga fyrsta áætlunarflug sitt milli Keflavíkur og Delí á Indlandi í desember. Áform félagsins um að hefja Asíuflug eru óbreytt, skv. upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði í kjölfar þess að WOW air tryggði sér 6,4 milljarða í skuldabréfaútboði sem unnið hefur verið að á síðustu vikum.
Samkvæmt upplýsingum frá félaginu verða fjármunirnir sem aflað var með útboðinu nýttir til rekstrarins og frekari uppbyggingar. Þá verður hluta fjárhæðarinnar varið til að gera upp við birgja félagsins.
Þá hyggur félagið á skráningu í Kauphöll innan eins til eins og hálfs árs. Verðmat á fyrirtækinu liggur ekki fyrir en Arion banki og Arctica Finance munu verða flugfélaginu til ráðgjafar í skráningarferlinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.