Deilt um bótakröfu hjúkrunarfræðings

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur

Deilt var um það við aðalmeðferð á skaðabóta­máli Ástu Krist­ín­ar Andrés­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræðings gegn ís­lenska rík­inu fyr­ir Lands­rétti í morg­un hvort hún hafi sjálf stuðlað að því að ákæra var gef­in út á hend­ur henni um mann­dráp af gá­leysi.

For­saga máls­ins er sú að sjúk­ling­ur sem var í um­sjá Ástu Krist­ín­ar lést á Land­spít­al­an­um í byrj­un októ­ber árið 2012 og var talið að hún hefði borið ábyrgð á and­láti hans vegna mistaka. Ásta Krist­ín viður­kenndi upp­haf­lega sök í mál­inu á fundi með yf­ir­mönn­um sín­um og síðan við skýrslu­töku hjá lög­reglu en breytti síðan framb­urði sín­um fyr­ir dómi.

Héraðsdóm­ur sýknaði Ástu Krist­ínu í des­em­ber 2015 af ákæru um mann­dráp af gá­leysi. Var þar meðal ann­ars fall­ist á að trú­verðugar ástæður væru fyr­ir breytt­um framb­urði. Upp­haf­leg­ur framb­urður hafi verið sett­ur fram í upp­námi og henni hafi verið ráðlagt af þáver­andi lög­manni sín­um að breyta hon­um ekki þegar henni hafi staðið það til boða.

Eft­ir sýknu­dóm­inn höfðaði Ásta Krist­ín skaðabóta­mál á hend­ur rík­inu. Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafnaði hins veg­ar skaðabóta­kröfu Ástu Krist­ín­ar og áfrýjaði hún því mál­inu til Lands­rétt­ar. Ríkið hef­ur hafnað bóta­greiðslu á þeim for­send­um að Ásta Krist­ín hafi sjálf stuðlað að því að ákæra var gef­in út með framb­urði sín­um í upp­hafi máls­ins.

Ásta Kristín Andrésdóttir eftir að hún var sýknuð í Héraðsdómi …
Ásta Krist­ín Andrés­dótt­ir eft­ir að hún var sýknuð í Héraðsdómi árið 2015. mbl.is/​Jón Pét­ur Jóns­son

Lögmaður Ástu Krist­ín­ar, Elva Ósk S. Wii­um fyr­ir hönd Ein­ars Gauts Stein­gríms­son­ar, sagði að rann­sókn lög­regl­unn­ar hafi verið löskuð frá upp­hafi og byggst á fundi henn­ar með yf­ir­mönn­um henn­ar dag­inn eft­ir and­lát sjúk­lings­ins. Hún hafi verið í upp­námi og trúað skýr­ing­um þeirra á því sem gerðist enda borið mikið traust til þeirra. Hún hafi síðan gert hið sama í skýrslu­töku hjá lög­reglu.

Ekki hafi verið rann­sakað hvort and­lát sjúk­lings­ins kynni að hafa borið að með öðrum hætti en talið var, ekki held­ur tíma­lína máls­ins eða gerðir annarra starfs­manna spít­al­ans. Brotið hafi verið á rétti henn­ar á fund­in­um með yf­ir­mönn­un­um, hún hafi ekki haft með sér lög­mann og ekki verið yf­ir­heyrð af hlut­laus­um aðila. Þá hafi fjöl­miðlaum­fjöll­un verið íþyngj­andi.

Lögmaður rík­is­ins, Ólaf­ur Helgi Árna­son, sagði að það væri ekki á ábyrgð rík­is­ins að Ásta Krist­ín hefði veitt ann­an framb­urð í skýrslu­töku hjá lög­reglu en fyr­ir dómi og hafnað því þegar henni hafi verið boðið að breyta framb­urði sin­um áður en ákæra hafi verið gef­in út. Ákvörðun um ákæru hafi fyrstog freemst byggst á rann­sókn og skýrslu­töku lög­reglu.

Ólaf­ur sagði enn­frem­ur að fjöl­miðlaum­fjöll­un væri ekki á ábyrgð rík­is­ins og ekk­ert benti til þess að hún hefði verið að frum­kvæði þess. Hins veg­ar hefði Ásta Krist­ín rætt við fjöl­miðla um málið. Þá sagði hann enn­frem­ur að bótakraf­an upp­fyllti ekki skil­yrði laga. Meðal ann­ars vegna þess að eng­um þving­un­araðgerðum hafi verið beitt við rann­sókn máls­ins.

Málið var að lokn­um mál­flutn­ingi lagt í dóm Lands­rétt­ar en bótakrafa Ástu Krist­ín­ar hljóðar upp á 4 millj­ón­ir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert