Deilt var um það við aðalmeðferð á skaðabótamáli Ástu Kristínar Andrésdóttur hjúkrunarfræðings gegn íslenska ríkinu fyrir Landsrétti í morgun hvort hún hafi sjálf stuðlað að því að ákæra var gefin út á hendur henni um manndráp af gáleysi.
Forsaga málsins er sú að sjúklingur sem var í umsjá Ástu Kristínar lést á Landspítalanum í byrjun október árið 2012 og var talið að hún hefði borið ábyrgð á andláti hans vegna mistaka. Ásta Kristín viðurkenndi upphaflega sök í málinu á fundi með yfirmönnum sínum og síðan við skýrslutöku hjá lögreglu en breytti síðan framburði sínum fyrir dómi.
Héraðsdómur sýknaði Ástu Kristínu í desember 2015 af ákæru um manndráp af gáleysi. Var þar meðal annars fallist á að trúverðugar ástæður væru fyrir breyttum framburði. Upphaflegur framburður hafi verið settur fram í uppnámi og henni hafi verið ráðlagt af þáverandi lögmanni sínum að breyta honum ekki þegar henni hafi staðið það til boða.
Eftir sýknudóminn höfðaði Ásta Kristín skaðabótamál á hendur ríkinu. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði hins vegar skaðabótakröfu Ástu Kristínar og áfrýjaði hún því málinu til Landsréttar. Ríkið hefur hafnað bótagreiðslu á þeim forsendum að Ásta Kristín hafi sjálf stuðlað að því að ákæra var gefin út með framburði sínum í upphafi málsins.
Lögmaður Ástu Kristínar, Elva Ósk S. Wiium fyrir hönd Einars Gauts Steingrímssonar, sagði að rannsókn lögreglunnar hafi verið löskuð frá upphafi og byggst á fundi hennar með yfirmönnum hennar daginn eftir andlát sjúklingsins. Hún hafi verið í uppnámi og trúað skýringum þeirra á því sem gerðist enda borið mikið traust til þeirra. Hún hafi síðan gert hið sama í skýrslutöku hjá lögreglu.
Ekki hafi verið rannsakað hvort andlát sjúklingsins kynni að hafa borið að með öðrum hætti en talið var, ekki heldur tímalína málsins eða gerðir annarra starfsmanna spítalans. Brotið hafi verið á rétti hennar á fundinum með yfirmönnunum, hún hafi ekki haft með sér lögmann og ekki verið yfirheyrð af hlutlausum aðila. Þá hafi fjölmiðlaumfjöllun verið íþyngjandi.
Lögmaður ríkisins, Ólafur Helgi Árnason, sagði að það væri ekki á ábyrgð ríkisins að Ásta Kristín hefði veitt annan framburð í skýrslutöku hjá lögreglu en fyrir dómi og hafnað því þegar henni hafi verið boðið að breyta framburði sinum áður en ákæra hafi verið gefin út. Ákvörðun um ákæru hafi fyrstog freemst byggst á rannsókn og skýrslutöku lögreglu.
Ólafur sagði ennfremur að fjölmiðlaumfjöllun væri ekki á ábyrgð ríkisins og ekkert benti til þess að hún hefði verið að frumkvæði þess. Hins vegar hefði Ásta Kristín rætt við fjölmiðla um málið. Þá sagði hann ennfremur að bótakrafan uppfyllti ekki skilyrði laga. Meðal annars vegna þess að engum þvingunaraðgerðum hafi verið beitt við rannsókn málsins.
Málið var að loknum málflutningi lagt í dóm Landsréttar en bótakrafa Ástu Kristínar hljóðar upp á 4 milljónir króna.