Mikill kostnaður við uppbyggingu hreinsistöðva, fráveitu og tengdra mannvirkja er meginástæða þess hve há fasteignagjöld í Borgarbyggð eru. Byggðastofnun birti á dögunum samanburð á heildarálagningu fasteignagjalda í 26 sveitarfélögum á landinu. Þar er Borgarbyggð í 2. sæti.
Gjöld af fasteignum eru annars sett saman úr nokkrum þáttum og þar á meðal fráveitugjaldi, sem hvergi er hærra á landinu en í Borgarbyggð, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta á sínar skýringar,“ segir Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri í samtali við Morgunblaðið. Hann vísar til þess að árið 2006 keypti Orkuveita Reykjavíkur allan veiturekstur Borgarbyggðar. Var þá ljóst að fara þyrfti í dýrar endurbætur á veitukerfinu sem sveitarfélagið hafði ekki bolmagn til að fara í. Hefur OR, nú Veitur, síðan endurbyggt fráveitur og byggt dælu- og hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Bifröst. Er samanlagður kostnaður við þessar framkvæmdir nú orðinn um 8,5 milljarðar króna og fráveitumálin komin í gott horf.