Lögreglan í Borgarnesi rannsakar nú mögulegt vopna- og veiðilagabrot við Rauðanes á Mýrum. Veiðimenn á báti skutu þar tugi fugla að sögn sjónarvotta.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir lögreglan að um sé að ræða veiðar í óleyfi innan landamerkja jarðar.
Jónas Hallgrímur Ottósson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Vesturlandi, staðfestir við Morgunblaðið að rannsókn sé í gangi en getur ekki sagt til um fjölda þeirra fugla sem voru drepnir né heldur hvort einhverjir þeirra voru friðaðir. „Við vitum ekki hvaða fuglar þetta eru, en við erum að rannsaka veiðar innan landamerkja jarðar í óleyfi og brot á vopnalögum og veiðilöggjöf. Við getum ekki staðfest ennþá hvort fuglarnir voru friðaðir,“ segir Jónas.