Karlmaður féll af þaki verslunarinnar Byko við Skemmuveg í Kópavogi 13. ágúst er hann var þar að störfum og lést af sárum sínum um tveimur vikum síðar.
Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta við mbl.is en DV greindi fyrst frá.
Maðurinn, sem var 39 ára gamall pólskur ríkisborgari, var að vinna við þakviðgerðir á vegum undirverktaka þegar hann féll niður um gat á þakinu, 5 til 6 metra.
Hann var með meðvitund þegar að var komið. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar og lést í framhaldinu af sárum sínum.
Málið er enn í rannsókn hjá lögreglunni, auk þess sem það er á borði Vinnueftirlitsins.