Spyr um skólaakstur og malarvegi

Teitur Björn Einarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr ráðherra um skólaakstur og …
Teitur Björn Einarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr ráðherra um skólaakstur og malarvegi. mbl.is/Eggert

Starfsmenn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins munu á næstunni leggjast í ítarlega skoðun á skólaakstri á Íslandi, í kjölfar fyrirspurnar  sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Teitur Björn Einarsson lagði fram til Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra málaflokkanna.

Fyrirspurnin fjallar um skólaakstur og malarvegi og er í fjórum liðum, en þingmaðurinn spyr meðal annars að því hver heildarkílómetrafjöldi daglegs skólaaksturs innan hvers sveitarfélags á Íslandi sé, hver stór hluti hans fari um malarvegi og hver fjöldi einbreiðra brúa á aksturleið skólabifreiða í hverju sveitarfélagi sé.

Þá spyr þingmaðurinn einnig að því hve margir nýti sér skólaakstur í hverju sveitarfélagi og hvort leiðir hafi verið kannaðar til að lækka framkvæmdakostnað við endurbætur á malarvegum, til dæmis hvort unnt sé að lækka kostnað við lagningu bundins slitlags og ef svo væri, hvaða niðurstöðum slíkar kannanir hafi skilað.

Teitur Björn vill einnig fá svör frá ráðherra um það hvort uppi séu áform um átak í endurbótum á malarvegum þar sem skólakstur fer fram. Óskað er eftir skriflegum svörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert