Undirrituðu samning um Heimilisfrið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Andrés Proppé Ragnarsson …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Andrés Proppé Ragnarsson sérfræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Andrés Proppé Ragnarsson sérfræðingur undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning velferðarráðuneytisins og verkefnisins Heimilisfriðs, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins. Gildisstími samningsins er eitt ár.

Um er að ræða meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum sem sálfræðingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, áður undir heitinu Karlar til ábyrgðar.

Heimilisfriður býður gerendum, körlum og konum, upp á meðferð með einstaklingsviðtölum og hópmeðferð. Í meðferðinni er miðað að því að gerendur viðurkenni ábyrgð á hegðun sinni og vinni að breytingum. Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal.

Undantekningar frá þessari meginreglu eru t.d. þegar barnaverndarnefndir, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðs. Heimilisfriður býður einnig upp á þjónustu á Norðurlandi.

Samkvæmt ákvæðum samningsins veitir ráðuneytið þeim sérfræðingum sem að verkefninu koma styrk til þjálfunar eða endurmenntunar á samningstímabilinu til að styrkja þekkingu þeirra og stuðla að þróun þjónustunnar og frekari gæðum hennar. Einnig er almenningi og faglærðum einstaklingum boðið upp á fræðslu og þjálfun varðandi ofbeldi í nánum samböndum og afleiðingar þess í íslensku samfélagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka