Tryggingafélagið VÍS hefur ákveðið að loka tveimur þjónustuskrifstofum sínum á landsbyggðinni og sameina aðrar sex í stærri einingar vegna endurskipulagningar og einföldunar þjónustufyrirkomulags. Tilgangurinn með breytingunum er að leggja meiri áherslu á stafrænar lausnir, að því er segir í tilkynningu frá VÍS. Fjórir starfsmenn missa vinnuna vegna breytinganna, þrír starfsmenn á skrifstofum og einn umdæmisstjóri. Öðrum hefur verið boðið starf á sameinuðum þjónustuskrifstofum.
Skrifstofum VÍS í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði verður lokað, en skrifstofur í Keflavík, á Akranesi og í Borgarnesi verða sameinaðar í Reykjavík. Skrifstofa á Hvolsvelli sameinast Selfossi, Húsavík sameinast Akureyri og skrifstofa á Reyðarfirði sameinast skrifstofunni á Egilsstöðum. Starfsemi á skrifstofum VÍS á ísafirði og Sauðárkróki verður óbreytt.
Í tilkynningu frá VÍS segir að samskipti við viðskiptavini fari í síauknum mæli fram í gegnum net og síma og samkvæmt þjónustukönnun kalli viðskiptavinir eftir aukinni þjónustu á þeim vettvangi. Áherslubreytingunum í þjónustu sé ætlað að svara því kalli.
„VÍS hefur undanfarið unnið að því að gera þjónustu við viðskiptavini aðgengilegri og einfaldari með stafrænum leiðum. Sem dæmi um það geta viðskiptavinir VÍS nú tilkynnt öll tjón á Mitt VÍS.“
Helgi Bjarnason forstjóri segir að nýlega hafi verið mótuð skýr framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki og breytingarnar nú séu í takt við þá sýn. Þeim sé ætlað að laga þjónustuna enn betur að þörfum viðskiptavina sem vilja einföld, flækjulaus og skilvirk tryggingaviðskipti.
„Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður efla þjónustuna okkar á því sviði.“