„Hörkumæting“ var á opnum fundi hjá Flugfreyjufélagi Íslands í hádeginu þar sem rætt var um stöðu flugfreyja í hlutastarfi hjá Icelandair. Þetta segir Berglind Hafsteinsdóttir formaður félagsins hún segir fólk ennþá vera að átta sig á þeirri stöðu sem það er gagnvart vinnuveitandanum.
Í myndskeiðinu eru rætt við Berglindi eftir fundinn.
Næstu skref eru frekara samráð við félagsmenn og Berglind á von á að í kjölfarið sendi félagið frá sér ályktun varðandi stöðuna þar sem flugfreyjur og flugþjónar í hlutastarfi hjá Icelandair þurfa að ákveða hvort þau vilja ráða sig í fulla vinnu hjá fyrirtækinu eða láta af störfum um áramótin.
Aðgerðir flugfélagsins eiga að bæta reksturinn og samkeppnishæfni þess að sögn forsvarsmanna Icelandair en eiga ekki við um flugfreyjur og flugþjóna sem eru búnir að vinna í 30 ár eða meira hjá flugfélaginu eða eru 55 ára og eldri. Öllum öðrum, 118 af 900 starfsmönnum, stendur til boða að fara í fullt starf um áramótin.
Berglind segir að ekki hafi einungis starfsmenn í hlutastarfi mætt á fundinn í hádeginu og það sé til marks um samstöðuna innan stéttarinnar. Hún segir að samskiptin við stjórnendur Icelandair hafi ekki verið mikil undanfarna daga en stjórnendur funda á þriðjudag með starfsmönnum og í kjölfarið verður boðað til formlegs fundar hjá Flugfreyjufélaginu.