Kynlífsdúkkan Kittý og bíllinn sem notaður var til að brjótast inn í kynlífshjálpartækjaverslunina Adam og Evu fundust á bílastæði við verslunarmiðstöðina Glæsibæ um þrjúleytið í dag. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Innbrotið varð um klukkan 5.30 í nótt, en þjófarnir óku bíl af Hyundai gerð með offorsi nokkrum sinnum á útidyrahurð verslunarinnar og fóru að því loknu inn og stálu þar sílikondúkkunni Kittý, sem og einhverju af titrurum og sleipiefni.
Að sögn Jóhann Karls er lögregla búinn að fjarlægja bílinn af bílastæðinu og mun rannsaka hann betur um helgina. Við tókum hann inn í skúr hjá okkur og ætlum að skoða hann betur á morgun,“ segir hann en unnið verði að rannsókninni um helgina.
Tveir einstaklingar sjást á myndbandi á eftirlitsbíl fara út úr bílnum og var framan af talað um að tvær konur hefðu verið þar á ferðinni. Að sögn lögreglu eru þjófarnir ófundnir og hefur kyn þeirra ekki verið staðfest.
Þorvaldur Steinþórsson, eigandi Adams og Evu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að heildartjónið nemi á bilinu einni til einni og hálfri milljón króna. Sagði hann verðmæti sílikondúkkunnar Kittýjar vera um 350 þúsund krónur.
Mesta tjónið varð þó vegna skemmdanna sem urðu er bílnum var ekið á húsið. Öryggishliðið sem þar var er ónýtt, neonskilti líka, auk styttu sem var við innganginn. Tvöföld útidyrahurðin er einnig ónýt, sem að sögn Þorvalds var mjög sterk og hafði aldrei verið brotin upp áður. Glerið í henni hafði aftur á mótið verið brotið af og til í gegnum árin. „Við vorum nýbúnir að fá öryggisgler í það. Það átti að halda en það var bara keyrt á ítrekað,“ sagði Þorvaldur.
„Það tekur svolítið mikið á að sjá hvers konar harka er að færast í þennan heim og hversu langt er seilst að mínu mati fyrir lítið. Húsið er stórskemmt og bíllinn er stórskemmdur fyrir eina sílikondúkku. Hvaða rugl er í gangi?“