Tengingar við borgina á áætlun eftir 2023

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitastjórnarráðherra kynnir samgönguáætlunina.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitastjórnarráðherra kynnir samgönguáætlunina. mbl.is/​Hari

Gert er ráð fyrir 13,5 milljörðum til nýframkvæmda á árunum 2019-2021 í nýrri samgönguáætlun, sem samgöngu og sveitastjórnarráðuneytið gerði aðgengilega í dag. Árin 2022-2023 er gert ráð fyrir 7,9 milljörðum til nýframkvæmda og svo 14,5 milljörðum árlega á árabilinu 2024-2033.

Fæst verkefni á höfuðborgarsvæðinu virðast þó eiga að koma til framkvæmda fyrr en eftir 2023 samkvæmt áætluninni, en samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt yfirlýsingunni á að  eyða á flöskuhálsum og bæta almenningssamgöngur, auk þess sem nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með „nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum“ verði skoðaðar.

Sameiginlegum verkefnahópi, undir stjórn Hreins Haraldssonar, fyrrverandi Vegamálastjóra, verður falið að vinna að forgangsröðun, fyrirkomulagi fjármögnunar og útfærslu verkefna, en horfa á til allra samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu og til tenginga við höfuðborgarsvæðið í heild sinni.

Miklabraut í stokk á seinni hluta áætlunar

Þau verkefni tengd höfuðborgarsvæðinu sem koma eiga til framkvæmda á árabilinu 2019-2020 samkvæmt samgönguáætlun er Hringvegurinn um Kjalarnes og er gert ráð fyrir 3,2 milljörðum í það verk og 2,4 milljörðum í Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi.

Næstu stóru verkefna á höfuðborgarsvæðinu eru hins vegar, samkvæmt samgönguáætlun, ekki á dagskrá fyrr en eftir 2023. Meðal þeirra eru Hringvegurinn frá Fossvöllum að Bæjarhálsi, þar sem kostnaður er talinn nema 4,7 milljörðum króna og fjórir kaflar Reykjanesbrautar — frá Holtavegi að Stekkjarbakka, Álftanesvegi að Lækjargötu, Krísuvíkurvegi að Hvassahrauni, Fitjum að flugstöð og er heildarkostnaður vegna þeirra metinn á 13,5 milljarða króna.

Lagning Hafnarfjarðarvegar í stokk í gegnum Garðabæ er á áætlun fyrir þriðja tímabilið og er áætlaður kostnaður vegna þess 3,5 milljarðar.

Miklubraut í stokk er einnig að finna á samgönguáætlun og er gert ráð fyrir 10 milljörðum af 20 milljarða kostnaði til verksins á 2- 3. tímabili áætlunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka