Vonast til að geta flýtt tvöföldun Reykjanesbrautar

Mörgum þykir 15 ár ansi löng bið en samgönguráðherra vonast …
Mörgum þykir 15 ár ansi löng bið en samgönguráðherra vonast til að verði hægt verði að flýta vinnunni. Rax / Ragnar Axelsson

Miðað við nýja samgönguáætlun sem gildir frá árinu 2019 til 2023 og langtímaáætlun til ársins 2033 er ekki gert ráð fyrir því að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar ljúki fyrr en eftir fimmtán ár.

Gert er ráð fyrir því að verki við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi ljúki á árunum 2019 til 2020, en fjórir kaflar Reykjanesbrautar, frá Holta­vegi að Stekkj­ar­bakka, Álfta­nes­vegi að Lækj­ar­götu, Krísu­vík­ur­vegi að Hvassa­hrauni, Fitj­um að flug­stöð eru ekki á dagskrá fyrr en eftir árið 2023.

Óánægja er strax farin að koma fram með þessa áætlun og þykir mönnum biðin eftir að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar ljúki, ansi löng.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, sem kynnti helstu atriði samgönguáætlunar á BSÍ fyrr í dag, segir slíka óánægju skiljanlega. Hann vonast hins vegar til að með því að fá inn nýtt fjármagn í gegnum gjaldtöku verði hægt að flýta vinnu við Reykjanesbrautina.

Akstursstefna aðskilin fyrr til að tryggja öryggi 

„Það er skiljanlegt að mönnum finnist þetta langur tími, en strax á næstu árum eru menn að taka þann kafla í Hafnarfirði og tengingar eða vegi sem eru hluti af Reykjanesbrautinni inn í Reykjavík, til þess að bæta umferðarflæðið og öryggið. En menn eru líka að tala um að aðskilja akstursstefnu frá Krísuvíkurafleggjaranum að Kúagerði í gegnum Hvassahraunið, þó svo að breikkunin verði síðar, einmitt til að tryggja umferðaröryggi,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

„Það voru byggð tvö hringtorg við Reykjanesbæ í fyrra í sama tilgangi en vonandi getum við sett inn ný verkefni með annarri fjármögnun og þá væntanlega einhvers konar gjaldtöku sem gerir það að verkum að við getum flýtt þessu verkefni. Það er planið. En einhver veginn verðum við að segja fram samgönguáætlun,“ útskýrir Sigurður Ingi.

„Seinni tvö tímabilin eru auðvitað ekki með fjarmagn og inni á fjármálaætlun og margt getur auðvitað breyst við næstu áætlun,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert