„Betra að klára málin áður en það er fagnað“

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

„Það er jákvætt skref að það komi fjármagn inn í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er yfirlýsing um að viðræður eru að hefjast. Það er það eina sem er skýrt af viljayfirlýsingunni,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is um viljayfirlýsingu sem Sam­tök sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu og sam­gönguráðherra und­ir­rituðu í gær.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fullyrti í samtali við mbl.is í gær að af viljayfirlýsingunni væri skýrt að framkvæmdir við borgarlínu muni hefjast árið 2020. Eyþór telur að enn séu mörg skref sem þurfi að stíga áður en slíkar fullyrðingar séu settar fram. „Þessir 80 milljarðar eru ekki komnir í hús fyrr en Alþingi samþykkir. Það vakti nú athygli margra að þarna [í viðtali Dags B. við mbl.is] væri notað orðið borgarlína, en ég held að það sé betra að klára málið áður en það er fagnað.“

Þá segir hann að orð Dags hafi verið sett fram í nokkurs konar kosningaham. „Kosningarnar eru búnar. Þarna er verið að ýkja hlutina heldur meira en er. Það var eins og þetta væri sagt í kosningabaráttuham.“

Ýmislegt sem gengur ekki eftir

Eyþór bendir jafnframt á að viljayfirlýsingin spanni langan tíma. „Þetta er viljayfirlýsing um að hefja viðræður. Þegar þeim er lokið þá hefur Alþingi síðasta orðið. Þessi viljayfirlýsing nær til ársins 2033 og við vitum það að á þeim tíma þá getur margt gerst.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki beina aðkomu að viðræðunum í borgarstjórn. „Við viljum náttúrulega að Reykjavík fái fjármagn til uppbyggingar. [...] Ég á von á því að hann [Dagur] upplýsi um framganginn og það væri gott að sjá tölurnar. En í aðdraganda kosninga þá var lofað Miklubraut í stokk og miðað við samgönguáætlun þá mun það ekki gerast næsta áratuginn. Þannig að það er ýmislegt sem ljóst er að gengur ekki eftir eins og lofað var,“ segir Eyþór. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert