Eignaskipting mjög ójöfn á Íslandi

Stéttaskipting á Íslandi kemur meðal annars fram í heilsufari að …
Stéttaskipting á Íslandi kemur meðal annars fram í heilsufari að sögn Guðmundar. mbl.is/​Hari

Stéttaskipting fyrirfinnst á Íslandi rétt eins og í öðrum vestrænum markaðssamfélögum. Mælikvarðar eins og eignaskipting setja okkur í flokk með Bandaríkjunum og Sviss. Þetta segir Guðmundur Ævar Oddsson, félagsfræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri.

Guðmundur átti samtal við Daníel Örn Arnarson, stjórnarmann í Eflingu, á fundi stéttarfélagsins í Gerðubergi í dag þar sem stéttaskipting á Íslandi var rædd undir yfirskriftinni: „Í landi ójafnra tækifæra? Stéttaskipting á Íslandi.“ Guðmundur segir birtingarmyndir stéttaskiptingar á Íslandi ekki eins ýktar og til dæmis í Bandaríkjunum eða Bretlandi en birtist með sama hætti.

„Ég myndi segja að í alþjóðlegum samanburði sé stéttaskipting á Íslandi ekki mjög stórt vandamál. En vandamálið sem fylgir stéttskiptingu er að hún heftir þá sem eru undirskipaðir og leyfir ekki öllum að þróa hæfileika sína,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Í flokki með Bandaríkjunum og Sviss

Hann segir að hér á landi sé lítill ójöfnuður þegar kemur að skiptingu launatekna en þegar við bætum við fjármagnstekjum þá verði ójöfnuður talsvert meiri.

„Eignaskipting á Íslandi er mjög ójöfn í alþjóðlegum samanburði og þegar við horfum á hreina eign þá á ríkasta 10% á Íslandi um 70%,“ segir hann.

„Slíkar tölur setja okkur í flokk með löndum eins og Bandaríkjunum og Sviss þannig að Ísland er ekki jafnaðarsamfélag þegar kemur að eignaskiptingu. Þegar við horfum á hvernig ójöfnuður endurskapast á milli kynslóða þá eru það eignir sem erfast frekar en laun þannig að ójöfnuður í eignaskiptingu er miklu afdrífaríkari breyta en ójöfnuður í tekjuskiptingu,“ bætir hann við.

Stéttaskipting á Íslandi kemur meðal annars fram í heilsufari og mun á því hversu líklegt fólk sé til að sækja sér læknisaðstoðar eftir launum segir Guðmundur.

Sex stéttir á Íslandi

„Það er ekki neitt eitt rétt stéttalíkan en eitt það líkan sem ég hef notast við greinir samfélagið í sex stéttir. Þetta eru ekki sjálfsmeðvitaðar stéttir eins og við sáum í byrjun 20. aldar þegar verkalýðsfélög komu til, verkalýðshreyfingin stofnaði stjórnmálaflokk og samtök atvinnurekenda. Þá var meiri stéttavitund meðal verkamanna,“ útskýrir Guðmundur.

Samkvæmt hans líkani eru þeir efstir sem fá þorra tekna sinna frá eignum eins og fjármagnstekjum og arðgreiðslum, það kallar hann kapítalíska efri stétt. Þar er einnig að finna stjórnendur stórfyrirtækja.

Efri millistétt er næst þar sem er að finna menntaða stjórnendur fyrirtækja og langskólagengna sérfræðinga á háum launum. Millistétt er yfirleitt samanskipuð af háskólamenntuðu fólki á meðaltekjum og vellaunaða iðnaðarmenn fyrir neðan hana er verkalýðsstétt. Í neðsta hlutanum er svo fólk í fullri vinnu sem er engu að síður við fátæktarmörk og svo fólk sem fær þorra launatekna frá ríkinu í formi bóta eða styrkja.

Hreyfanleiki milli stétta á Íslandi þó nokkuð góður í alþjóðlegum samanburði samkvæmt Guðmundi.

„Við sjáum að á Íslandi er þokkalegur hreyfanleiki í stéttakerfinu. Hann er aðeins minni en á öðrum Norðurlöndum en virðist þokkalegur í alþjóðlegum samanburði. Helst er að tregðu gæti neðarlega í samfélaginu,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert