Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mun í dag skoða bílinn sem keyrt var inn í hjálpartækjaverslunina Adam og Evu aðfaranótt föstudags. Munu fingraför innbrotsþjófanna einna helst vera könnuð sem og annað sem kann að leiða til frekari vísbendinga um innbrotið.
Kynlífsdúkkan Kittý og bíllinn sem notaður var til að brjótast inn í kynlífshjálpartækjaverslunina Adam og Evu fundust á bílastæði við verslunarmiðstöðina Glæsibæ um þrjúleytið í gær.
Lögreglunni hafa borist einhverjar ábendingar frá almenningi sem kunna að gagnast í málinu, að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Við skoðum þetta núna um helgina og sjáum hvað kemur út úr þessu.“ Þá segist hann bjartsýnn á að þjófarnir finnist.
Annað segir Jóhann Karl að ekki sé hægt að segja um málið að svo stöddu „Þetta er bara í hefðbundnu ferli.“
Þorvaldur Steinþórsson, eigandi Adams og Evu, sagði í samtali við mbl.is í gær að heildartjónið nemi á bilinu einni til einni og hálfri milljón króna. Sagði hann verðmæti sílikondúkkunnar Kittýjar vera um 350 þúsund krónur.