„Ég þorði ekki að segja nei“

Aðeins eru 18 mánuðir síðan Erna greindi fjölskyldunni frá reynslu …
Aðeins eru 18 mánuðir síðan Erna greindi fjölskyldunni frá reynslu sinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Erna Ómarsdóttir, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, er ein þeirra sem stigið hafa fram og sakað belgíska listamanninn Jan Fabre, sem stofnaði Troubleyn-leikhúsið í Antverwerpen, um kynferðislega áreitni og óviðeigandi hegðun. Ásakanirnar komu fram í opnu bréfi sem 20 listamenn, konur og karlar, sem starfað hafa í Troubleyn, birtu fyrr í mánuðinum. Listamennirnir sögðu raddir þeirra hluta af #metoo-byltingunni.

Erna var þar efst á lista, en hún lýsir því í viðtali við New York Times í dag hvernig það að starfa með Fabre hafi „valdið henni áfalli sem hún hafi verið að takast á við síðustu 18 ár“.

Hann hafi meðal annars otað að henni fíkniefnum og viljað mynda hana á meðan hún stundaði sjálfsfróun.

Hún segir það hafa verið daglegt brauð að hann kallaði dansara feita og heimska. Á endanum hafi fólk orðið ónæmt fyrir slíkum ummælum. Þau hafi einfaldlega orðið hluti af vinnudeginum.

Erna, sem gekk til liðs við fyrirtæki Fabre þegar hún var rúmlega tvítug, segist hafa notið sín í fyrstu en upplifun hennar hafi breyst eftir að hann kallaði hana inn á skrifstofu til sín og bað hana um að vinna með sér að sérstöku verkefni. Tímaritamyndatöku þar sem hún átti að stunda sjálfsfróun á meðan hann myndaði augu hennar.

Notaði sálfræðileiki til að fá sínu framgengt

„Ég þorði ekki að segja nei,“ segir Erna í samtali við New York Times. „Þú vissir að ef þú sagðir nei þá myndi það bitna á stöðu þinni innan fyrirtækisins.“ Hún segir hann hafa verið slyngan í nota sálfræðileiki. „Hann talar við þig á sérstakan hátt. „Þú þarft ekki að gera þetta. Það eru margir aðrir sem bíða eftir þessu tækifæri.“.“

Þegar Erna kom í íbúð hans vegna myndatökunnar var hann einn á staðnum. Hún segir hann hafa gefið henni vín og svo komið með kókaín og boðið henni. Sagði það hjálpa henni að slaka á.

Jan Fabre er sakaður um kynferðislegt ofbeldi og kúgun af …
Jan Fabre er sakaður um kynferðislegt ofbeldi og kúgun af 20 listamönnum. AFP

Erna hafði aldrei neytt fíkniefna og neitaði, en hann hélt áfram að ota efninu að henni þangað til hún lét undan. „Ég var mjög drukkin og hálfrugluð svo ég gerði hluti sem ég hefði annars aldrei gert.“ Erna segist hafa skammast sín mikið vegna þessarar reynslu. Hún segir hann síðan hafa borgaði henni í reiðufé og sýnt henni nokkrar myndanna.

Eftir þetta atvik reyndi Fabre ítrekað að fá að hitta hana. Hún neitaði lengi vel en lét svo undan. Erna vildi þó ekki ræða það sem fram kom á fundunum í viðtalinu. Sagði aðeins 18 mánuði síðan hún hefði greint fjölskyldunni sinni frá þessari reynslu. Ástæðan fyrir því að hún vildi tjá sig um málið nú væri sú að henni þætti hún hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart öðrum dönsurum. „Þú finnur hjá þér mikla þörf fyrir að segja frá, því það verður að stöðva hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert