Eldfjallafræðingur sem gerði rannsóknir á útstreymi koltvísýring frá Kötlu, ásamt fleiri vísindamönnum, og ritaði grein um niðurstöðurnar í tímaritinu Geophysical Research Letters, er mjög ósáttur við grein um eldfjallið sem birtist í Sunday Times. Fyrirsögn greinarinnar er „Íslenskur risi að því kominn að gjósa“.
Evgenia Ilyinskaya segir í Facebook-færslu sem hún ritar í dag að blaðamaður Sunday Times hafi ekki rétt eftir henni í greininni og fyrirsögnina segir hún bókstaflega ranga. Töluvert mikið er gert úr því að gos í Kötlu geti haft mikil áhrif á flugsamgöngur í Evrópu og er í því samhengi vísað til gossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Fram kemur í greininni að öskustrókurinn í Kötlu komi til með að verða enn stærri.
Hún segist hafa rætt við blaðamann í 20 mínútur og í því samtali hafi komið fram að vísindamenn væru ekki í aðstöðu til að spá fyrir um hvenær Katla muni gjósa eða hvort hraunkvika væri að byggjast upp.
Þá hefði hún sagt blaðamanni að ólíklegt væri að gos í Kötlu myndi hafa jafnmikil áhrif á flugsamgöngur og gosið í Eyjafjallajökli gerði. Hins vegar sé þveröfugt haft eftir henni.
Evgenia segist aldrei hafa sagt við nokkurn blaðamann að hraunkvika væri að byggjast upp, enda sýni rannsókninar ekkert um það. Samt sé þetta fullyrt í fréttaumfjöllun af málinu, en fleiri fjölmiðlar hafa tekið upp umfjöllun Sunday Times og slegið upp fyrirsögnum þess eðlis að Katla sé í þann mund að fara að gjósa.
Hún segir þetta ekki bara gefa lesendum rangar upplýsingar heldur geri þetta lítið úr henni sem vísindamanni og sérfræðingi á sínu sviði. Hún sé því virkilega reið.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, ritaði einnig færslu í tengslum við fréttaflutning af rannsókninni á Kötlu, á Facebook í síðustu viku og sagði gæta nokkurs misskilnings.
Þar sagði hann að fram kæmi í greininni að útstreymi koltvísýrings frá Kötlu geti verið á bilinu tíu til tuttugu þúsund tonn á dag sem er með því mesta sem þekkist í eldfjöllum. „Mælingarnar segja ekkert um hvort nú sé gos í aðsigi eða hve stórt næsta gos verður,“ skrifaði Magnús Tumi og benti á að höfundar fjalli hvergi um þann möguleika í grein sinni.
„Mælingarnar sýna hins vegar ótvírætt að CO2 leitar upp í miklum mæli og hefur gert í einhver ár, hve lengi er ekki vitað en svipað útstreymi gæti hafa varað undanfarna áratugi,“ sagði hann jafnframt.