Tækifæri í nyrstu byggðum

Heimamenn tóku vel við sér þegar Rannsóknastöðin Rif ásamt fleirum …
Heimamenn tóku vel við sér þegar Rannsóknastöðin Rif ásamt fleirum efndi til strandhreinsunar um síðustu helgi. Ljósmynd/Rannsóknastöðin Rif, Raufarhöfn

Starfsemi Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn hefur aukist jafnt og þétt síðustu fjögur ár og skilar sínu til byggðarinnar. Mikil tækifæri eru fólgin í því að gera Melrakkasléttu að miðstöð norðurslóðarannsókna á Íslandi.

Frá því Rannsóknastöðinni Rif á Raufarhöfn var komið á laggirnar fyrir fjórum árum hefur mikilvægi hennar fyrir byggðina í nágrenni Melrakkasléttu orðið sífellt meira. Á milli tvö og þrjú hundruð gistinætur á Raufarhöfn á hverju sumri má rekja til gesta á vegum þessarar litlu stöðvar sem hefur aðeins einn starfsmann en gegnir þó stóru hlutverki. Erlendir vísindamenn sækja í að stunda rannsóknir á svæðinu.

Hrönn G. Guðmundsdóttir, umhverfisfræðingur og starfandi forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar, segir lykilatriði í starfseminni að skila einhverju til samfélagsins. Hlutverk Rifs sé í raun þríþætt; að efla rannsóknir, miðla upplýsingum og styðja nærsamfélagið. „Það hefur verið markmið frá upphafi að efla og auka veg náttúrufarsrannsókna á Melrakkasléttu. Við leggjum sérstaka áherslu á vistkerfisrannsóknir og viljum stuðla að því að Melrakkasléttan verði ákveðin miðja í norðurslóðarannsóknum á Íslandi. Hún ber öll helstu einkenni norðurslóða hvað náttúrufar og veður varðar,“ segir Hrönn.

Hrönn G. Guðmundsdóttir, umhverfisfræðingur og starfandi forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar Rifs á …
Hrönn G. Guðmundsdóttir, umhverfisfræðingur og starfandi forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn.

Rannsakendur frá Noregi og Íran

Vísindamenn og skólahópar víðs vegar að hafa sótt í að koma norður í því skyni að stunda vísindarannsóknir á náttúrufari Melrakkasléttu, loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á norðurslóðum. Á þessu ári hafa meðal annars komið hingað rannsakendur frá Þýskalandi, Noregi og Íran á vegum rannsóknarstöðvarinnar. Hrönn telur að mikil tækifæri felist í frekari uppbyggingu vísindastarfs á þessum slóðum.

„Við höfum undanfarið unnið að því að koma upp náttúrufarsvöktun og vinnum sérstaka vöktunaráætlun á Melrakkasléttu í samstarfi við CAFF, vinnuhóp um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika á vegum norðurheimskautsráðsins, og rannsóknastöðvar á Grænlandi og í Kanada undir hatti vísindasamstarfs sem heitir InterAct. Undir þessu samstarfsneti var unnin vöktunaráætlun á Melrakkasléttu og vinnan hjá okkur næstu ár er að koma þessari vöktun af stað. Þá er hugmyndin að þarna geti orðið til gögn sem geti varpað ljósi á ástand vistkerfanna á norðurslóðum og breytingar á þeim.

Ég held að þetta sé komið til að vera og það séu miklir möguleikar á að þetta vaxi og dafni og verði bara mjög mikilvæg stoð í náttúrufarsrannsóknum hér á Íslandi,“ segir Hrönn.

Munar um nokkur hundruð gistinætur

Rannsóknastöðin Rif dregur nafn sitt af jörðinni Rifi, nyrstu jörð á Íslandi, sem stöðin hefur til umráða. Hún var sett á fót eftir að Raufarhöfn komst í hóp svokallaðra brothættra byggða. Náttúrustofa Norðausturlands vann þá greinargerð þar sem lagt var til að rannsóknastöð yrði komið á fót á þessu svæði til að styðja við byggðina og náttúruna.

„Hún var stofnuð 2014 en fyrst um sinn var enginn starfsmaður, í júlí 2015 kom inn starfsmaður í 70% starfshlutfall og núna í tvö ár hefur verið hér starfsmaður í fullu starfi. Við auðvitað vonumst eftir því að starfsmönnum fjölgi og ég tel að verkefnin kalli á það. Starfsemin hefur vaxið mjög mikið á þessum fjórum árum,“ segir Hrönn.

Um 2-300 gistinætur á Raufarhöfn í sumar komu til vegna …
Um 2-300 gistinætur á Raufarhöfn í sumar komu til vegna vísindamanna og skólahópa á vegum Rannsóknastöðvarinnar Rifs. Sigurður Bogi Sævarsson

Vísindamenn geta fengið aðstöðu til sinna rannsókna gegnum rannsóknastöðina og nú þegar er áhrifa þessara heimsókna farið að gæta á Raufarhöfn. „Okkur fylgir eftirspurn eftir þjónustu. Vísindamenn þurfa að borða, gista o.s.frv. Þetta eru líklega um 2-300 gistinætur, á hverju sumri og vonandi meira á næstu árum,“ segir Hrönn og bendir á að það muni um slíkt fyrir smærri byggðarlög. Hún segir allt útlit fyrir að aðsóknin í að koma og stunda rannsóknir á Melrakkasléttu muni aukast.

Hrönn nefnir sem dæmi að í sumar hafi 16 manna nemendahópur komið á vegum stöðvarinnar til Raufarhafnar og margir smærri hópar og einstaklingar.
„Bæði vonumst við til að erlendir vísindamenn komi en líka að íslenskar rannsóknarstofnanir muni taka að sér þessa vöktun sem stefnt er að í vöktunaráætlun Rifs og fari í auknum mæli að stunda hérna rannsóknir.“

Mikilvægt að skila til samfélagsins

En starfsemin skilar sér ekki einungis í fjölgun gistinátta og auknum rannsóknum á náttúrulífi Sléttunnar heldur segir Hrönn líka skipta máli að skila einhverju til nærsamfélagsins gegnum fræðslustarf og samvinnu, til dæmis með samstarfi við grunnskólann á Raufarhöfn.
Annað samfélagsverkefni er hreinsun strandlengjunnar, en á dögunum stóð Rif fyrir hreinsun strandlengjunnar í samstarfi við Áhaldahúsið á Raufarhöfn og með stuðningi Norðurþings, í tengslum við alþjóðlegan hreinsunardag (e. World Cleanup Day). Íbúar tóku þátt og samtökin Veraldarvinir einnig.

„Ein af ástæðunum fyrir því að mig langaði að fara í hreinsun var einmitt að gera eitthvað með fólkinu hér, að tengja þetta saman, vísindastarfið og samfélagið. Það lá beinast við að við tækjum þátt með því að hreinsa ströndina því strandlengjan er það sem einkennir og prýðir svæðið hérna hvað helst. Melrakkasléttan er mjög opin fyrir hafstraumum þannig að það er mjög margt sem berst á fjörurnar.“

Margt varð á vegi þeirra á þessum hreinsunardegi og segir Hrönn áberandi hversu mikið af plasti tengdu sjávarútvegi berist á fjörurnar.
„Það er rosalega mikið plast alls staðar. Það er bæði nýtt og gamalt. Það er ekki mikið lengur af svona heimilissorpi. Þetta er aðallega eitthvað sem hlýtur að falla af skipum. Mikið af veiðarfærum. Rosalega mikið af netum, netakúlum og öllu sem tengist sjávarútvegi. Selir, fuglar og fiskar drepast í þessum netum. Kindur drepast líka í þeim þegar þau rekur á fjörurnar. Netin geta skapað hættu og það er mikið af þeim,“ segir Hrönn.

Enginn býr lengur á nyrsta bæ landsins, Rifi, en á …
Enginn býr lengur á nyrsta bæ landsins, Rifi, en á jörðinni eru nær óþrjótandi möguleikar á hvers konar rannsóknum og vöktun á sviði náttúruvísinda.


Mikil hefð er fyrir því á Melrakkasléttu að fylgjast með fuglum og ferðum þeirra enda er Melrakkasléttan mikilvægt umferðarsvæði farfugla en með tilkomu rannsóknastöðvarinnar hefur sjónum einnig verið beint að fleiri þáttum hins merka náttúrulífs sléttunnar.
„Rannsóknir á fuglum halda áfram en við höfum einnig lagt áherslu á gróðurfarsrannsóknir og frá því í fyrra einnig rannsóknir á smádýrum. Við höfum unnið mikið kynningarstarf innan þessa alþjóðlega samstarfsnets sem við tilheyrum til að vekja athygli á svæðinu og það virðist vera að skila sér.“




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert