„Verið að misnota UNESCO-skráninguna“

Færunestindar í Skaftafellsfjöllum.
Færunestindar í Skaftafellsfjöllum. mbl.is/RAX

„Við skiljum UNESCO-skráninguna þannig að það þurfi að ríkja sátt í samfélaginu um verndun og stjórnun og því miður er sú sátt ekki til staðar. Við erum dálítið undrandi á því að menn ætli að reyna að fara í gegn með þessa skráningu án þess að reyna að leita sáttarinnar,“ segir Snorri Ingimarsson verkfræðingur í samtali við mbl.is um tilnefningu til skráningar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. 

Snorri er fulltrúi Samtaka útivistarfélaga í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og telur hann að tilnefningin til heimsminjaskrárinnar hafi verið misnotuð í áralöngu deilumáli um enduropnun á umdeildri lokun Vonarskarðs fyrir bíla- og hjólaumferð innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Sakar hann svæðisráð Vestursvæðis í þjóðgarðinum um að hafa notað heimsminjaskráninguna sem rök fyrir áframhaldandi lokun slóðanna. 

„Við studdum þetta upphaflega því þetta er svo sem voðalega flott að fá þessa skráningu. En síðan gerist það eftir að farið er að skrifa umsóknina að eitt svæðisráðið, svæðisráð Vestursvæðis, ber fyrir sig UNESCO-skráninguna þegar þau vilja ekki opna Vonarskarðið, sem við höfum barist fyrir síðan því var lokað,“ segir Snorri. 

Ákvörðun um lokun tekin í andstöðu við samtökin

Á heims­minja­skrá UNESCO eru staðir sem telj­ast hafa gildi ekki ein­vörðungu fyr­ir viðkom­andi land held­ur fyr­ir allt mann­kyn. Ísland á þegar tvo staði á heims­minja­skránni, Þing­velli (2004) og Surts­ey (2008). Nú eru komnir hingað til lands tveir úttektaraðilar á vegum UNESCO sem munu kanna svæðið og funda með starfshópi ráðherra og hagsmunaaðilum vegna heimsminjaskráningarinnar.

Snorri sagði í samtali við mbl.is í fyrra að ákvörðunin um lokun Vonarskarðs í kjölfar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verið verulega umdeild á sínum tíma og tekin í andstöðu við útivistarsamtök. Í hópnum „Ferðafrelsi“ á Facebook hefur, allt frá lokun slóðanna fyrir bílaumferð og hjólreiðaumferð, verið umræðuvettvangur fyrir stuðningsmenn enduropnunar slóðanna í Vatnajökulsþjóðgarði.

„Ekki sáttir við þetta“

„Við töldum okkur nú hafa tíma fram á næsta sumar til þess að leysa það mál áður en það yrði gerð þessi úttekt sem að þarf að gera áður en að skráningin er tekin til umfjöllunar hjá UNESCO. En nú eru komnir tveir menn, til þess að taka út þjóðgarðinn, og verða með fundaröð næstu viku. Við erum náttúrulega ekki sáttir við þetta, að það sé hreinlega verið að misnota UNESCO-skráninguna í erfiðum deilumálum,“ segir Snorri.

Þar til á föstudag leit út fyrir að úttektaraðilar UNESCO myndu aðeins funda með svæðisráðunum í Vatnajökulsþjóðgarði og stjórnvöldum en ekki með hagsmunasamtökum líkt og samtökum útivistarfélaga. Fallist var á að halda fund í Reykjavík með Samtökum reykvískra útivistarfélaga eftir harða gagnrýni þeirra.

„Við fáum núna að hitta þessa fulltrúa og höfum hugsað okkur að upplýsa þá um þessar deilur sem hafa verið, því samkvæmt okkar heimildum hafa þeir aðilar ekki verið upplýstir. Þeir sem standa að skráningunni kalla þetta smávægilegt álitamál, stóru deiluna um Vonarskarð, þannig að við neyðumst til að upplýsa þá um þetta,“ segir Snorri.

Snorri Ingimarsson.
Snorri Ingimarsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert