Upp og niður blautar götur New York-borgar streyma regnhlífar í stríðum straumum og mannfólkið með. Það er rigning og hráslagalegt eftir viku hitabylgju og fólk er að flýta sér. Regnhlífarlaus blaðamaður berst með mannfjöldanum niður í Soho, á Broadway, til fundar við Íslendinginn og iðnhönnuðinn Hlyn Vagn Atlason. Þar rekur hann fyrirtæki sitt Atlason og hefur í nógu að snúast.
Aðspurður um listræna hæfileika segist Hlynur ekki hafa verið listrænn í æsku og hafði satt að segja aldrei heyrt talað um iðnhönnun fyrr en hann fyrir tilviljun datt inn í það fag. Hann gekk hinn hefðbundna menntaveg, fór í Tjarnarskóla og þaðan í Kvennó. Eftir menntaskóla lét hann ævintýraþrána ráða för og flutti til Svíþjóðar þar sem hann bjó í nokkra mánuði og þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar í ár, „bara að slæpast“, eins og hann orðar það. Svona eins og ungt fólk gerir gjarnan áður en það finnur sína hillu.
Eftir að áhugi Hlyns á iðnhönnun kviknaði og hann hóf nám í Parsons-hönnunarskólanum átti fagið hug hans allan. „Þetta var mjög tilviljanakennt, og ég hafði fram að þessu verið miðlungsnemandi,“ segir Hlynur og bætir við að eftir menntaskóla hafi hann verið greindur með lesblindu, nokkuð sem engan hafði grunað áður.
„En þegar ég byrjaði í listaháskóla þá gekk mér mjög vel og ég útskrifaðist hæstur úr mínum árgangi í Parsons,“ segir Hlynur, sem hefur búið í New York allar götur síðan, bráðum í tvo áratugi.
„Það var ekkert á planinu að búa hér en þessi gráða nýtist kannski ekkert sérlega vel á Íslandi og hér var ég búinn að eignast vini og koma mér upp tengslaneti. Það var þá ekkert annað að gera en vera hér áfram,“ segir Hlynur, sem vann fyrst eftir nám hjá auglýsingafyrirtæki. Eftir tvö ár hjá því fyrirtæki stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Atlason, árið 2004.
Hann segir fyrirtækið hafa gengið vel, fyrir utan tímabil í kringum fjármálahrunið árið 2008. „Það var dálítið streð þar á eftir,“ segir Hlynur en í dag er fyrirtækið á uppleið og hann er með níu manns í vinnu.
Hjá Atlason er unnið að ýmsum verkefnum; allt frá því að hanna umbúðir til húsgagna, en þessa dagana eru það húsgögnin sem Hlynur hefur mestan áhuga á.
„Ég hanna aðallega stóla einhverra hluta vegna. Á hinn bóginn erum við í nýsköpunarvinnu með stórum fyrirtækjum. Þá erum við að vinna t.d. með pakkningar fyrir stór fyrirtæki,“ segir Hlynur og nefnir að nýlega hafi þau unnið að stóru verkefni fyrir bjórfyrirtæki að endurhanna allar umbúðir.
„Mér finnst best að vera með fjölbreytni í þessu og maður lærir alltaf eitthvað í einu verkefni sem nýtist í næsta. En upp á síðkastið hefur verið mjög spennandi að vinna í húsgögnunum,“ segir Hlynur.
„Við vinnum töluvert með þekkri verslun sem heitir Design within reach,“ segir Hlynur. „Þetta er Epal Bandaríkjanna að vissu leyti. Þeir eru bæði að selja þekkt skandinavísk vörumerki en framleiða einnig sjálfir. Þeir eru með búðir um öll Bandaríkin og mjög stórir hér,“ segir hann.
Blaðamaður gúglar búðina Design within reach og fyrsta sem blasir við á forsíðu er stóll eftir Hlyn sem ber nafnið Lína. Sá stóll hefur verið afar vinsæll síðan hann fór í sölu.
„Nafnið var í raun ekki mín hugmynd en virkar vel,“ segir Hlynur, enda stóllinn ansi línulegur.
„Búðin dreifir nú bæklingi sem fær mjög góða dreifingu og fer inn á mörg heimili og fyrirtæki. Stóllinn er farinn að seljast töluvert vel, bæði í búðinni og eins á netinu.“
Viðtalið í heild birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.