Ákærðir fyrir árás á dyravörð

Árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Kíkí á Klapparstíg.
Árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Kíkí á Klapparstíg.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir líkamsárás á dyravörð fyrir utan skemmtistaðinn Kíkí í desember 2016. Þá eru þeir einnig ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa reynt að koma í veg fyrir handtöku og ráðist á lögreglumenn. Til viðbótar er sambýliskona annars mannanna einnig ákærð fyrir að hafa reynt að sparka í höfuð lögreglumanns og togað í hár hans þegar verið var að handtaka mennina tvo.

Í ákæru málsins er því lýst að mennirnir hafi slegið dyravörðinn með krepptum hnefa í andlitið. Þá er annar þeirra sagður hafa tekið dyravörðinn hálstaki. Þetta hafi valdið því að hann fékk yfirborðsáverka, opið sár á eyra og tognun og ofreynslu á hálshrygg.

Eftir að lögregla mætti á staðinn hafi fyrri maðurinn klipið lögreglumann í lærið og bitið hann í handlegg. Þá hafi hann haft í hótunum við lögreglumenn á lögreglustöðinni og sagst ætla að „gera eitthvað miður skemmtilegt við þá og aðstandendur þeirra“.

Hinn maðurinn er ákærður fyrir að hafa bitið annan lögreglumann í innanvert lærið. Konan er ákærð fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu á staðnum og reynt að koma í veg fyrir handtöku mannanna. Þannig gerði hún tilraun til að sparka í höfuð tveggja lögreglumanna og togaði í hár annars þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert