Dýralæknar fái tækifæri til íslenskunáms

Kýr á beit.
Kýr á beit. mbl.is/Eggert

„Þetta leys­ir ekki þann vanda sem Mat­væla­stofn­un stend­ur frammi fyr­ir,“ seg­ir Char­lotta Odds­dótt­ir, formaður Dýra­lækna­fé­lags Íslands, um frum­varp sem sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra kynnti fyr­ir rík­is­stjórn­inni fyr­ir helgi. Verði frum­varpið að lög­um verður ekki leng­ur gerð krafa um að dýra­lækn­ar sem starfa á Íslandi tali ís­lensku.

Í um­sögn Dýra­lækna­fé­lags­ins vegna frum­varps­ins er bent á mik­il­vægi þess að dýra­lækn­ar í op­in­ber­um störf­um hafi vald á ís­lenskri tungu til að geta tryggt heil­næmi afurða, sjúk­dóma­vökt­un og gætt að vel­ferð dýra sem og tryggja ör­ygg sam­skipti í op­in­berri stjórn­sýslu.

„Það að Dýra­lækna­fé­lagið geri at­huga­semd við þetta er ekki vegna þess að það vill ekki fá er­lenda dýra­lækna til starfa, held­ur vegna þess að kröf­ur um ís­lenskt stjórn­sýslutungu­mál eru lög­bundn­ar og það eru ástæður fyr­ir því,“ seg­ir Char­lotta. „Dýra­lækn­ar þurfa að skilja og þekkja ís­lensk lög og geta flett upp í þeim.“

Erfitt hefur reynst að manna stöður dýralækna hér á landi …
Erfitt hef­ur reynst að manna stöður dýra­lækna hér á landi með ís­lensku­mæl­andi dýra­lækn­um, og hef­ur vand­inn verið árstíðabund­inn í kring­um slát­urtíð að hausti. Ljós­mynd/​Sig­urður Jóns­son

Erfitt hef­ur reynst að manna stöður dýra­lækna hér á landi með ís­lensku­mæl­andi dýra­lækn­um, og hef­ur vand­inn verið árstíðabund­inn í kring­um slát­urtíð að hausti. Char­lotta seg­ir mikla starfs­manna­veltu, bæði meðal ís­lenskra, ís­lensku­mæl­andi og er­lendra dýra­lækna, hjá Mat­væla­stofn­un, líkt og hjá öðrum op­in­ber­um stofn­un­um.

„Það er vænt­an­lega af því það er mikið álag. Það er vís­bend­ing um að stofn­un­in sé und­ir­mönnuð, ekki síst vegna fjár­svelt­is.“

Myndi hvetja ís­lenska dýra­lækna til að koma heim

Char­lotta seg­ir Dýra­lækna­fé­lagið vilja sjá meira fé sett í Mat­væla­stofn­un til þess að hægt sé að ráða fólk í sér­hæfð verk­efni. „Það myndi hvetja ís­lend­inga sem læra dýra­lækn­ing­ar til þess að koma heim, og veita stofn­un­inni ráðrúm til þess að gera er­lend­um dýra­lækn­um kleift að til­einka sér ís­lensku.“

Í um­sögn Dýra­lækna­fé­lags­ins seg­ir að hingað til hafi stuðning­ur er­lendra dýra­lækna til ís­lensku­náms verið af skorn­um skammti. „Fæst­um hef­ur verið boðið að þiggja ís­lensku­nám­skeið og þar af leiðandi hafa marg­ir hverj­ir ekki þekk­ingu á ís­lensk­um lög­um eða reglu­gerðum sem þeim er þó treyst fyr­ir til að vinna eft­ir.“

Vegið að mat­væla­ör­yggi

Char­lotta seg­ir að laga­breyt­ing­in yrði skamm­tíma­lausn. Þrátt fyr­ir að hún gerði Mat­væla­stofn­un kleift að ráða fleiri dýra­lækna gætu þeir ekki skrifað eft­ir­lits­skýrsl­ur eða haft sam­band við eft­ir­litsþega. Tví­vinna þyrfti hverja skýrslu, sem yki álag á sam­starfs­fólk.

„Verði þetta frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um nr. 66/​1998 um dýra­lækna og heil­brigðisþjón­ustu við dýr samþykkt á Alþingi er vegið veru­lega að mat­væla­ör­yggi, heilsu­fari og vel­ferð búfjár og það verður enn erfiðara að fá ís­lenska dýra­lækna til að starfa hjá því op­in­bera,“ seg­ir í um­sögn Dýra­lækna­fé­lags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert