Útlendingum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa fengið útgefin atvinnuleyfi vegna sérfræðiþekkingar sinnar til starfa hér á landi, hefur fjölgað mikið á seinustu þremur til fjórum árum. Á árunum 2012 til 2017 voru tímabundin atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar alls 16% allra nýrra leyfa sem gefin voru út. Að sögn Gísla Davíðs Karlssonar, sérfræðings á Vinnumálastofnun, voru veitt 162 ný sérfræðingsleyfi á öllu seinasta ári og það sem af er þessu ári eru þau orðin 126.
Allt í allt hefur Vinnumálastofnun veitt 328 ný og framlengd atvinnuleyfi, vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar, á yfirstandandi ári.
Ef litið er á fimm algengustu þjóðerni útlendinga sem fengið hafa sérfræðingsleyfi það sem af er yfirstandandi ári vekur athygli að flestir eru frá Filippseyjum eða rúmlega 60. Næstflestir eru frá Kína og Bandaríkjunum.
Gísli Davíð segir að langflestir Filippseyinganna sem hingað komu séu hjúkrunarfræðingar. Sú þróun hafi byrjað fyrir fáeinum árum þegar Filippseyingum fjölgaði sem hingað komu, fóru í nám til að ná tökum á íslenskunni og fengu svo starfsleyfi og fóru til starfa á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum.
Greinin í heild birtist í Morgunblaðinu.