Leiðakerfi Strætó er nú aðgengilegt á almenningssamgangnahluta Google Maps. Almenningssamgangnakerfi Google inniheldur gögn frá um 18.000 borgum um allan heim, þar á meðal flestum stærri borgum Evrópu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
Upphaflega var stefnt að því að koma leiðakerfinu í Google Maps á síðasta ári, en fljótt kom í ljós að aðlaga þurfti gögn Strætó að gögnum Google. Síðasta ár fór því í umfangsmikla hugbúnaðarvinnu sem lauk í síðustu viku.
„Við fögnum því að þetta sé loksins orðið að veruleika. Við teljum að þetta sé afar mikilvægt skref til þess að gera kerfið okkar aðgengilegra fyrir alla, hvort sem þeir eru fastir viðskiptavinir, óvanir notendur eða erlendir ferðamenn,“ er haft eftir Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó.