Undirbúa aðgerðaáætlun vegna lyfjaskorts

Gigtarlyfið Naproxen E Mylan er meðal þeirra lyfja sem hafa …
Gigtarlyfið Naproxen E Mylan er meðal þeirra lyfja sem hafa verið ófáanleg hér á landi um tíma. Skjáskot/Twitter

Lyfjastofnun hefur boðað fulltrúa lyfjaframleiðenda og heildsöludreifingar til fundar vegna lyfjaskorts á ákveðnum lyfjum, sér í lagi krabbameinslyfjum og gigtarlyfjum. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun fer fundurinn fram á morgun. Sömuleiðis hefur verið boðað til fundar með lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingum Íslands á miðvikudag.

Fregnir af lyfjaskorti hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga. Lára Guðrún Jóhönnudóttir vakti athygli á því í síðustu viku að krabba­meins­lyf sem hún þarf á að halda hafi verið nán­ast ófá­an­leg síðan í maí.

Þá sagði Sig­ur­veig Mar­grét Stef­áns­dótt­ir lækn­ir frá því í gær að átta ára son­ur henn­ar sem er með sjald­gæf­an gigt­ar­sjúk­dóm fái ekki lyf­in sem hann þarf á að halda þar sem þau eru ekki til á land­inu.

Á fundunum verður farið yfir verkferla með það fyrir augum hvað sé hægt að bæta. Í kjölfarið verður sett fram aðgerðaáætlun. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var spurð um lyfjaskort í fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku. Hún sagðist undrandi á því hversu algengur lyfjaskortur er og benti hún á að verið sé að vinna að nýju frumvarpi sem felur í sér heildarendurskoðun á lyfjalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka