Aðför mistækra karla að kvennastétt

Birgir Þórarinsson gagnrýnir Icelandair.
Birgir Þórarinsson gagnrýnir Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi Icelandair harðlega á Alþingi í dag. Hann sagði skilaboð frá yfirstjórn til flugfreyja og flugþjóna vera einföld: „Annaðhvort farið þið í fullt starf eða verðið rekin. Þið hafið fjóra daga til þess að svara.“

Hann sagði að það að setja starfsfólki sem haldið hafi tryggð við fyrirtækið árum saman afarkosti með þessum hætti sé forkastanlegt. 

Gleymum því ekki að fyrirtækið sjálft hefur í gegnum tíðina óskað eftir því að flugfreyjur og flugþjónar taki að sér hlutastörf þegar erfiðleikar steðja að til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir og þannig tryggt að þekking og reynsla tapist ekki hjá félaginu.“

Birgir sagði að starfsmenn hefðu þá, eins og oft áður, verið boðnir og búnir að taka á sig skerðingu og þegar erfiðleikar séu í rekstri sé alltaf ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Það skyldi þó ekki vera að hægt væri að hagræða í yfirstjórninni og minnka arðgreiðslur? Ekki tekur yfirstjórnin pokann sinn og axlar ábyrgð á mistækum ákvörðunum í rekstri. Nei, nú eru það konur og ung börn sem eru allt of dýr fyrirtækinu,“ sagði Birgir og hélt áfram:

Þær skulu rétta skútuna af sem karlarnir í brúnni með alla sína stjórnunarhæfileika hafa siglt af leið með röngum ákvörðunum í harðri samkeppni á flugmarkaði. Fyrir það þurfa nú samviskusamar konur að gjalda. Þeir sem verða fyrir uppsögnunum eru 99% konur. Mál þetta er aðför mistækra karlstjórnenda að kvennastétt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert