Deilt um afskipti Jóns Ásgeirs af Glitni

Jón Ásgeir Jóhannesson mætir í Landsrétt í morgun.
Jón Ásgeir Jóhannesson mætir í Landsrétt í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir ákærðu voru mættir í dómsal í Landsrétti þegar aðalmeðferð í Aurum-holding málinu hófst þar í morgun. Fyrsti klukkutíminn fór í skýrslutöku saksóknara yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, en ljóst var strax frá upphafi að grunnt var á því góða milli þeirra, enda hefur  nú verið tekist á fjórum sinnum í dómsal í málinu, þar af hefur Jón gefið skýrslu þrisvar. Spurði saksóknari Jón Ásgeir ítrekað út í afskipti hans af lánveitingum Glitnis til félaga sem bæði tengdust honum og öðrum sem hann átti sjálfur ekki í og hvort hann teldi rétt að hafa slík afskipti sem stjórnarformaður og stór eigandi í Glitni.

Ekki tekin skýrsla af Lárusi

Ekki þarf að endurflytja mál milli héraðsdóms og Landsréttar, en hægt er að óska eftir að leggja fram ný gögn eða taka skýrslu af mönnum á ný, meðal annars til að reyna að fá gleggri mynd á það sem óljóst er. Landsréttur getur því byggt að stóru leyti á því sem fram kom þar. Upphaflega var gert ráð fyrir að Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Jón Ásgeir myndu gefa skýrslu í dag af þeim sem eru ákærðir í málinu, auk Pálma Haraldssonar, sem kenndur er við Fons. Ekkert varð þó af því Lárus gæfi skýrslu þar sem verjandi hans dró til baka kröfu um slíkt. Taldi saksóknari því ekki þörf á að spyrja hann heldur.

Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari varpaði í dómshaldinu í dag upp á skjá fjölda afrita af tölvupóstsamskiptum á milli Jóns Ásgeirs og stjórnenda í Glitnis á árunum 2006 til 2008. Mörg þeirra voru á milli hans og Lárusar, en einnig við aðra starfsmenn bankans.

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, mætir í dómsal.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, mætir í dómsal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spyr um afskipti Jóns Ásgeirs af Glitni

Spurði saksóknari meðal annars út í bréf sem fóru á milli Jóns Ásgeirs og Lárusar vegna þeirra viðskipta sem ákært er út af og tengjast lánveitingu til félagsins FS38 vegna viðskipta meá Aurum-holding skartgripafélagið. Virtist hann þar vera með hugmyndir um hvernig ætti að haga málum félagsins Fons sem átti einnig hlut í Aurum á móti félagi Jóns Ásgeirs, Baugi. Jón sagði það hins vegar vera eðlilegt, enda hafi Baugur verið leiðandi í ýmsum fjárfestingaverkefnum, t.d. viðskiptum með Aurum. Sagði Jón Ásgeir að hann hefði aðeins komið fram fyrir hönd verkefnisins í heild.

Jón Ásgeir sendir einnig Lárusi póst í nóvember 2007 varðandi mögulega fyrirgreiðslu fyrir Kevin Stanford vegna viðskipta með bréf All Saints fataverslunina. Sagðist hann aðeins hafa sent þetta áfram eins og margt sem hann hefði verið beðinn um. Þá bar saksóknari upp önnur bréf í tengslum við mögulega lánveitingu og uppgjör sem tengdist endurskipulagningu FL. Var þar meðal annars vísað til aðkomu Hannesar Smárasonar og spurði saksóknari Jón Ásgeir hvort hann hefði átt þar beina aðkomu að. Sagðist hann hafa sent þetta sem hluthafi í FL að leita leiða til að klára endurskipulagninguna. Tók Jón Ásgeir fram að hann hafi ekki getað haft bein áhrif á viðskipti félaga Hannesar.

Þá var meðal annars sýndur póstur frá Kristni Björnssyni, sem var í forsvari fyrir Gnúp fjárfestingafélag, til Jóns Ásgeirs með beiðni um aðstoð í samskiptum við Glitni. Sagðist hann meðal annars alltaf hafa verið „hliðhollur við FL-stokkinn.“ Jón Ásgeir sendi þann póst áfram til Lárusar með skilaboðunum „Hvað er að gerast í þessu???“ og bætti við að Kristinn væri góður drengur. Sagði Jón Ásgeir aðspurður um aðkomu sína að þessu að hann hefði bara sent þetta áfram eins og margar aðrar beiðnir sem hefðu komið til sín. Hann hefði ekki bein áhrif á ákvarðanatöku innan bankans.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari mætir ásamt starfsmanni embættisins með mikinn …
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari mætir ásamt starfsmanni embættisins með mikinn fjölda gagna í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deilt um „food for thought“

Í öðrum bréfum sem vísað var til og Jón Ásgeir spurður út í var meðal annars póstur á Lárus um afkomu bankans og annar póstur með punktum um mál sem væru framundan. Undir þann póst skrifaði Jón „Food for thought“. Deildu  Jón Ásgeir og Ólafur um merkingu þess, en Ólafur taldi að þarna væri hann að óska eftir aðgerðum Lárusar, en Jón Ásgeir sagði þetta þýða að hann væri að biðja Lárus um að skoða málin.

Saksóknari spurði Jón Ásgeir einnig um það hvernig Aurum hefði verið skráð í bókum Baugs og af hverju verðmæti þar væri mun lægra en það verðmat sem vörnin hefur talið eðlilegt að miðað sé við (sem er hærra en saksóknari hefur sagt að raunverulegt verðmæti hafi verið). Sagði Jón Ásgeir að þetta væri eðlilegt í bókhaldi og þarna væri um varúðarfærslu að ræða og verðmæti félagsins hafi ekki verið endurmetið.

Pálmi varði verðmæti Aurum í bókum Fons

Pálmi Haraldsson mætti á eftir Jóni Ásgeiri og var skýrsla tekin af honum. Spurði saksóknari hann einnig um samband Fons og Baugs og sagði Pálmi þau nokkuð lík því sem Jón Ásgeir hafði áður lýst. Þau væru mjög mikil, með samofnum hagsmunum og fjárfestingum í ýmsum félögum. Hins vegar hafi Baugsmenn ekkert með ákvarðanir fyrir hann að gera.

Þá svaraði Pálmi því af enn meiri festu en Jón Ásgeir að hann teldi ekki óeðlilegt að verðmæti Aurum hefði verið lægra í bókum Fons en var notast við í viðskiptunum sem ákært er fyrir. Í dag væri búið að herða reglurnar mikið, en að eigendur gætu metið óskráð félög í sínum bókum á mismunandi hátt. Vísaði hann meðal annars til þess að Skúli Mogensen hefði nýlega sagt verðmæti WOW air vera um 60 milljónir evra á sama tíma og eigið fé væri lítið. Þá benti hann á að verslunin Iceland hefði verið metið 30 milljarða frá söluverðmæti félagsins í bókum Fons. „Ein leiðin er mín leið og er ekkert endilega rétta leiðin og svo getur verið önnur leið,“ sagði Pálmi varðandi hvaða leið hefði verið valin við að meta þessa óskráðu eign í bókum Fons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka