„Hann var að vísa manninum út af skemmtistað og þá slær maðurinn hann í andlitið,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, einn eigenda ISR Matrix á Íslandi. Ráðist var á einn iðkenda þar um helgina þar sem Tobbi, eins og hann er kallaður, var við störf sem dyravörður. ISR Matrix birtir myndskeið af atvikinu á Facebook-síðu sinni þar sem sagt er að Tobbi hafi brugðist fagmannlega við.
„Hann gerir þetta mjög fagmannlega og þetta er áreynslulaust hjá honum,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is. Tobba tókst að koma manninum í jörðina og tryggja á honum hendurnar. „Hann er með hann í öruggri stöðu á meðan hann bíður eftir aðstoð.“
Að sögn Jóns Viðars var lögregla kölluð til og hefur málið verði kært.
Aðferðin sem Tobbi notaði til að ná manninum í jörðina kallast „outside reap“ og er notað í flestum bardagaíþróttum, að sögn Jóns Viðars. „Síðan þegar hann nær honum niður þá setur Tobbi hann í svokallaða „S-stöðu“ þar sem hann leggst ekki ofan á hann heldur er með hné ofan á kjálka og skrokk. Það getur verið hættulegt fyrir dyraverði að leggjast ofan á því það er fólk í kring, ef eitthvað skyldi gerast þá getur hann staðið hratt upp og bjargað sér.“
Að sögn Jóns Viðars hefur Tobbi æft hjá ISR Matrix síðan snemma árs og æfir þar öryggistök og neyðarvörn. „Hjá okkur æfa margir öryggisverðir og lögregluþjónar. Þetta snýst um að geta yfirbugað fólk án þess að slasa það.“