Fullur stuðningur við samninganefndina

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fullum stuðningi var lýst yfir við forystu Læknafélags Reykjavíkur og samninganefnd þess í viðræðum við ríkið á fjölmennum fundi sérfræðilækna í kvöld.

Þetta sagði formaður félagsins, Þórarinn Guðnason, í fréttum Ríkisútvarpsins. Sagði hann lækna ákveðna í að standa saman. Ársframlenging á rammasamningi, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað, þætti frekar stuttur tími.

Þórarinn sagði enn fremur að stjórn Læknafélagsins og samninganefnd hefðu fengið umboð til að ræða við heilbrigðisráðherra og fundað yrði á fimmtudaginn í næstu viku. Fundinn í kvöld sátu um 110 sérfræðilæknar og lauk honum um klukkan tíu í kvöld.

Sagði Þórarinn aðspurður sérfræðilækna bjartsýna á framhaldið. „Ég sé ekki annað en að við förum í þessar viðræður með opnum huga og góðum huga og sé ekki annað en að viðræðurnar sem byrja í næstu viku eigi að geta orðið góðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert