Gullglyrnur gerðu innrás

Gullglyrnan er af bálki netvængja og sótti þessi Kópasker heim …
Gullglyrnan er af bálki netvængja og sótti þessi Kópasker heim í sumar. Ljósmynd/Erling Ólafsson

Mikið var af gullglyrnum hér á landi seinni part sumars. „Gullglyrnurnar streymdu yfir landið austanvert. Á Höfn í Hornafirði sáust þær í hverjum garði í ágústmánuði. Smám saman tóku þær að berast vestur eftir landinu allt til höfuðborgarinnar.“

Þetta skrifar Erling Ólafsson skordýrafræðingur á facebooksíðu sína, Heimur smádýranna, og talar um að þær hafi gert innrás.

„Gullglyrnan þokkafulla er af bálki netvængja,“ skrifar Erling. „Hún er árviss gestur hér frá Evrópu sem berst sunnan úr álfunni með hlýjum vindum. Í byrjun ágúst streymdi til landsins fjöldi þessara glæsilegu smádýra með granna græna bolinn og stóru glertæru vængina með þéttriðna æðanetinu sem leggjast í ris í hvíld. Gulgræn augun eru einstaklega falleg, stór og hvelfd, líkust sindrandi gullmolum. Þaðan kemur heitið.“

Ekki hefur verið sýnt fram á að gullglyrnur fjölgi sér hérlendis, en vísast geta þær lifað af vetur í köldum geymslum og sumarhúsum. Eintök af gullglyrnum sem finnast úti á landsbyggðinni eru ávallt vel þegin, skrifar Erling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka