Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti í mars 2017 á stofn starfshóp sem átti að vinna greiningu á verkefnum Samgöngustofu. Starfshópurinn skilaði af sér áfangaskýrslu í október á síðasta ári en ekki hefur farið mikið fyrir vinnu með tillögur skýrslunnar í ráðuneytinu.
„Við gerðum til að mynda athugasemdir við ýmislegt í innri starfsemi og stjórnun Samgöngustofu og öll þessi atriði voru tilgreind og rökstudd nokkuð ítarlega. Í kjölfar þessa hefur ráðuneytið ekki óskað eftir því að starfshópurinn leggi af mörkum frekari vinnu og þar við situr,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður og formaður starfshópsins, í umfjöllun um skýrsluna í Morgunblaðinu í dag.
Meðal þess sem tekið var fram í skýrslunni var þörfin á að tryggja skýran aðskilnað á milli eftirlitsaðila og eftirlitsskyldra aðila í flugrekstri. Var til dæmis lögð fram í vinnu hópsins alvarleg gagnrýni á samskipti Samgöngustofu og Isavia, sem hafi hvorki verið nægilega fagleg né formleg, auk þess sem þess var ekki gætt að hæfileg fjarlægð væri við Isavia þegar ákvarðanir sem snertu fyrirtækið beint voru teknar.
Auk Sigurðar Kára voru í hópnum þau Bergþóra Halldórsdóttir hdl. og Hreinn Loftsson hrl. Þá unnu tveir starfsmenn úr ráðuneytinu með starfshópnum. Starfshópurinn skilaði áðurnefndri áfangaskýrslu fyrir ári, í október 2017, og byggist hún á viðtölum og fundum með tugum viðmælenda.